Swufus á Dansverkstæðinu 5 febrúar kl 20:00

05. feb 2013

Swufus@breakfast

Lettneski sviðshópurinn Swufus sem dvalið hefur á Höfn í Hornafirði mun deila afrakstri vinnu sinnar undir verkefnisheitinu "Naked Happiness" í listrænni vinnustofu kl 20.00 þriðjudagskvöldið 5. febrúar á Dansverkstæðinu Skúlagötu 30 (bakhús, bak við Kex hostel).

Með komu Swufus til landsins hófst verkefnið Wilderness Dance. Í vikunni kemur annar hópur, Foreign mountain og dvelur á Egilsstöðum í þrjár vikur. Wilderness er stærsta verkefnið sinnar tegundar sem hleypt hefur verið af stokkunum á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum. 10 danshópar voru valdir í haust úr 110 umsækjendum til að taka þátt í verkefninu. Verkefnið fer fram í fimm löndum á árunum 2013-­‐2015, Íslandi, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Lettlandi. Fyrsta eina og hálfa árið fara hóparnar í gestavinnustofur á 10 mismunandi stöðum í löndunum fimm og fer hver þeirra á tvo staði þar sem þeir munu þróa og æfa dansverk. Vorið 2014 verður valið úr dansverkum hópana og fara þau áfram til frekari sýninga á vegum samstarfsaðila Wilderness og víðar, í samstarfi við hátíðir og leikhús víða í Evrópu.

Listamennirnir fjórir sem mynda lettneska hópinn Swufus, eru þau Kristine Vismane, Rulofs Baltins og bræðurnir Janis og Uldis Snikers. Þau koma úr leiklist, dansi, ljósa-­‐ og hljóðhönnun og beinist áhugi þeirra sem hópur að því að grafast fyrir um fólk og menningu með því að staðsetja sig frammi fyrir hinu óþekkta.

Á Höfn hafa þau rannsakað hvernig lettnesk sérkenni þeirra hafa áhrif á samfélagið. Hópurinn hefur útbúið “síma-­‐hvísluleik” þar sem ákveðnum upplýsingum er miðlað til fólks og munu þessar upplýsingar fara í hring og berast listahópnum aftur. Óhjákvæmilega munu upplýsingarnar breytast á leiðinni og lítur hópurinn á þetta verkefni sem ævintýraför þar sem ákveðnir mannlegir eiginleikar verða afhjúpaðir á meðan ýmislegt annað týnist á leiðinni. Sem fyrr segir munu þau deila afrakstri vinnu sinnar með áhorfendum á Dansverkstæðinu v/ Skúlagötu þriðjudagskvöldið 5. febrúar og hefst kynningin kl. 20.00

Nánar má lesa um verkefnið og samstarfsaðila á Kedja.net

Fleiri fréttir