Alþjóðlegi leikhúsdagurinn 27. mars 2016

Ávarp eftir Friðgeir Einarsson

26. mar 2016

Á öldum áður var eiginlega allt bannað á Íslandi. Það var harðbannað að dansa og syngja og ef einhverjum hefði dottið í hug að setja upp leiksýningu hefði það örugglega verið bannað líka. Að þykjast vera eitthvað var ekki vel séð. Eitt af fáu sem var ekki bannað var samvera. Fólk var eiginlega alltaf saman, bjó saman, vann saman, svaf í sama herbergi og svo framvegis. Það var ekki mikið prívat í þá daga, svo gott sem ómögulegt að vera einn. Ljósmynd Dagur GunnarssonLjósmynd Dagur Gunnarsson
Í dag er ekkert bannað. Það er í fínu lagi að þykjast vera eitthvað, jafnvel lofsvert. Ef einhver vill stíga á stokk og segja að ráðamenn séu fífl þá þykir það hið besta mál. Það er raunar óþarfi að stíga á stokk, við búum yfir tækjakosti sem getur útvarpað hugsunum okkar. Nú á dögum er sem sagt ekki margt prívat heldur, svo gott sem ómögulegt að vera einn.
Við búum yfir djúpstæðri hvöt til að tengjast öðru fólki, sama hvaða stemning er í samfélaginu, og seilumst langt í að þróa nýjar leiðir til að hafa samskipti. Við finnum samt fyrir því hvernig öll þessi nýja spjalltækni er takmörkuð.
Allir sem hafa notað skæp vita að það kemst ekki í hálfkvisti við að vera í sama herbergi og viðmælandinn. Andlitið er til staðar, röddin og orðin – en það vantar eitthvað. Það vantar snertingu, en ekki bara það, það vantar líka eitthvað sem ekki er svo auðvelt að koma í orð. Einhverja orku eða bylgju sem er ekki stafræn og gerir fólki kleift að stilla sig saman, ganga í takt, anda í takt, hugsa í takt, vera í takt.
Þess vegna ferðast fólk yfir hálfan hnöttinn til að mæta á fundi, forseti fer í opinbera heimsókn frekar en að taka upp símann, amma og afi keyra suður til að hitta barnabörnin þó að þau eigi myndir í góðri upplausn, fjölskyldan mætir í ferminguna til að sjá einn úr hópnum fara í skrítinn búning og taka þátt í skrítna athöfn. Fólk vill vera á staðnum.
Þetta þekkjum við leikhúsrotturnar. Það er notalegt heima, nóg af mat, nóg af neti, nóg í sjónvarpinu, nóg af öllu. Samt rífum við okkur upp úr sófanum. Hypjum okkur í leikhúsin þar sem veitingar eru dýrar og bannað að vera í símanum. Af hverju gerum við það?
Við viljum tengjast einhverju, öllu, hvoru öðru, samtímanum, sögunni, okkur sjálfum, andanum, efninu og einhverju sem við kunnum ekki að koma í orð. Til þess að það sé hægt verður maður að vera á staðnum.
Leikhúsið er eins og fermingarveisla fyrir þjóðina, stórfjölskylduna. Fjölskyldan hittist, fólk fer í skrítna búninga, framkvæmir athöfn og við sem erum að horfa stillum okkur um að hanga í símanum á meðan. Við erum á staðnum, við erum með. Leikhús er eins og opinber heimsókn, ferð suður, tímaflakk og hvað sem er, það er leið til að læra, til að gleyma og tengjast öllum fjandanum.
Á alþjóðlegum degi leiklistar er ekki úr vegi að veita því athygli hvernig leikhúsið skapar mótvægi við allt þetta stafræna havarí, vettvangur fyrir fólk að ná saman og skapa hliðræna nánd.
Og þó er ekki hægt að útiloka hið stafræna úr leikhúsinu; leikhúsið er ekki er minjasafn, fokdýr leið til að rifja upp þá tíma þegar fólk safnaðist saman til að fylgjast með öðru fólki þykjast vera annað fólk. Það er lifandi vera og vill tengjast samtímanum eins og við hin, það er lifandi vera sem vill þroskast, eldast og breytast, jafnvel deyja og fæðast upp á nýtt, Á öllum tímum, til dæmis núna þegar allir eru að sýna sig daginn út og inn, vill leikhúsið ekki vera fast í fortíðinni. Leikhúsið veit húsa best hvað það er mikilvægt að vera á staðnum, hér og nú. Hvað það síðan felur í sér veit enginn, sennilega ekki það sjálft heldur.

Fleiri fréttir