Alþjóðlegi leiklistardagurinn 27. mars 2016

23. mar 2016

anatoli-vassiliev-(c)-Natalia-Isaeva

Boðskapur Anatolis Vassilievs á alþjóðlega leiklistardeginum, 27. mars 2016

Þurfum við leikhús?

Spyrja þúsundir vonsvikins leikhúsfólks og milljónir áhorfenda sem eru þreyttir á því.

Til hvers þurfum við það?

Einmitt nú á tímum þegar leiksviðið virðist svo léttvægt í samanburði við stræti, torg og lönd þar sem raunverulegir harmleikir eiga sér stað hvern einasta dag.

Hvaða merkingu hefur það í okkar augum?

Gylltar svalir, silkibólstruð sæti, rykug leiktjöld, velþjálfaðar leikraddir eða andstæðan - skítug svört leikrými lituð af leir og blóði og spriklandi naktir líkamar.

Hvað getur það sagt okkur?

Allt!

Leikhús getur sagt okkur allt.

Hvernig Guðirnir lifa á himnum, hvernig fangar þjást í gleymdum neðanjarðarhellum, hvernig ástríðan lyftir okkur í hæðir, hvernig ástin drepur, hvernig eftirspurn eftir góðum sálum er engin í þessum heimi, hvernig svik drottna, og á hvaða hátt fólk býr í íbúðum, þegar börn veslast upp í flóttamannabúðum, og hvernig þau öll verða að snúa aftur inn í eyðimörkina, og hvernig við þurfum að kveðja ástvini okkar aftur og aftur, - leikhús getur sagt frá þessu öllu.

Leikhús hefur alltaf verið til og mun alltaf vera til.

Og nú, á okkar tímum, síðustu fimmtíu eða sjötíu ár, er það einstaklega mikilvægt. Ef við skoðum listir heimsins sjáum við strax að leikhúsið er hið eina sem talar beint til okkar, orð frá munni til munns, glampi frá auga til auga, hreyfing frá hönd til handar, frá líkama til líkama. Það þarf enga milliliði til að miðla frá manni til manns, það er gegnsætt eins og ljósið, það gerir ekki greinarmun á suðri, norðri, austri né vestri, ónei, það er kjarninn í sjálfu ljósinu og lýsir eins og jarðkringlan sjálf í allar höfuðáttir heimsins, sem allir greina samstundis, hvort sem þeir eru fjandsamlegir því eða vinveittir.

Og við þörfnumst síbreytilegs leikhúss, við þörfnumst margvíslegs leikhúss.

Þó tel ég að í allri fjölbreytninni verði nú á tímum þörf fyrir hið hefðbundna form leikhússins ofaná. Leikhús trúarlegra helgisiða ætti ekki að skoðast sem andstæðu leikhúsa "siðmenntaðra" þjóða. Veraldleg list er í síauknu mæli holuð að innan og svonefnd "upplýsandi list" sett í stað einfalds sannleika og útrýmir von okkar um að mæta honum.

Leikhúsið opnar dyr sínar upp á gátt. Aðgangur er frjáls.

Til fjandans með tól og tölvur - farið í leikhús, fyllið sætaraðir í sal og á svölum, hlustið á orðin og horfið á lifandi myndir! Fyrir augum ykkar er leikhús, vanrækið það ekki og missið ekki af tækifærinu til að taka þátt í því - ef til vill er það dýrmætasti möguleikinn í fáfengilegu og hröðu lífi okkar.

Við þurfum alls kyns leikhús.

Það er einungis ein tegund leikhúss sem svo sannarlega enginn þarf - ég á við leikhús pólitískra leikja, leikhús pólitískra músagildra, leikhús pólitíkusa, leikhús vonlausrar pólitíkur. Það sem við sannarlega þörfnumst ekki er leikhús daglegra ógna, hvorki einstaklinga né hópa, það sem við þurfum ekki er leikhús líflausra líkama og blóðs á torgum og strætum, í höfuðborgum og á landsbyggð, falskt leikhús átaka trúarbragða og þjóðflokka.


Um Anatoly Vassiliev

Anatoly Vassiliev (1942) er heimsþekktur rússneskur leikhúsfrömuður. Hann útskrifaðist úr efnafræði frá Háskólanum í Rostock en hóf leikstjórnarnám í Ríkisleiklistarskólanum í Moskvu (GITIS) og lauk því árið 1973 og hóf störf við Listaleikhúsið í Moskvu og skapaði sér nafn í leiklistarheimi borgarinnar. Ásamt hópi leikara réðist hann til starfa við Tagankaleikhúsið hjá Yuri Luybimov þar sem hann sviðsetti leiksýningar sem færðu honum heimsfrægð: Sex persónur leita höfundar eftir Pirandello, Cerceau eftir Viktor Slavkin og margar fleiri. Sýningum hans var boðið til fjölda landa. Hann stofnaði rannsóknarleikhús sitt Skóla leiklistar (School of Dramatic Art) í Moskvu. Hann leikstýrði og hélt námskeið víða um heim einkum á Ítalíu og Frakklandi. Sökum ágreinings við stjórnvöld í Moskvu lét hann af störfum við leikhús sitt árið 2006 og flutti til meginlands Evrópu. Hann starfar í París, Lyon og London. Árið 2010 setti hann á fót þriggja ára námskeið fyrir leiklistarkennara sem fram fóru í Feneyjum og við Grotowski-stofnunina í Varsjá. Snemma á þessu ári leikstýrði Vassiliev leikritinu La Musika eftir Marguerite Duras í þjóðleikhúsi Frakka Comedie Francaise. Frumsýningin var fyrr í þessum mánuði. Anatoly Vassiliev hefur hlotið fjölda virtra viðurkenninga bæði í Rússlandi og einnig ítölsk, frönsk, kanadísk verðlaun og árið 2008 var hann gerður að sendiherra leiklistarinnar af Alþjóðlega leiklistarsambandinu/UNESCO

Fleiri fréttir