Leiklistarhátíð ASSITEJ - fyrir unga áhorfendur

24. - 28. apríl 2013

19. apr 2013

puttar

Fyrsta leiklistarhátíð ASSITEJ, samtök leikhúss fyrir unga áhorfendur, fer fram 24. til 28. apríl nk. Flestir viðburðir hátíðarinnar fara fram í Tjarnarbíói og Iðnó og er aðgangur ókeypis að þeim öllum. Framkvæmdastjórn hátíðarinnar er skipuð Agnari Jóni Egilssyni, Maríu Pálsdóttur og undirritaðri.

Íslensku verkin sem valin voru á hátíðina eru:

Skýjaborg - Barnamenningarfélagið Bíbí og Blaka
Skrímslið litla systir mín - Leikhúsið 10 fingur
Völuspá - Möguleikhúsið

Það er mat valnefndar (skipaðri Vigdísi Jakobsdóttur formaður ASSITEJ á Íslandi, Stefáni Jónssyni leikstjóra og Ævari Þór Benediktssyni leikara) að þessi þrjú verk séu öll verðugir fulltrúar íslensks barnaleikhúss og samanlagt dekka þau markhópinn allt frá hálfs árs og uppúr.

Auk þessara þriggja sýninga verður á hátíðinni boðið upp á norræna gestasýningu frá sænska leikhópnum PotatoPotato byggða á skáldsögu Kára Tulinius: Píslarvottar án hæfileika.

Þá verður boðið upp á eina sýningu á Prumpuhóli Þorvaldar Þorsteinssonar í Gerðubergi (Möguleikhúsið) til minningar um þennan merka listamann og hið mikilvæga framlag hans til barnamenningar.

Þrjár leiksmiðjur fyrir mismunandi aldurshópa verða í boði. Smiðjurnar eru allar samstarfsverkefni við Listkennsludeild LHÍ og eru leiddar af meistaranemum í leiklistarkennslu.

Auk alls þessa er í boði sögustund í Iðnó og sviðsettur leiklestur á glænýju leikverki Þórarins Leifssonar fyrir 10-14 ára: Útlenski drengurinn.

Norrænn fundur
Samhliða leiklistarhátíðinni mun stjórn ASSITEJ hýsa norrænan tengslanets-fund ASSITEJ. Slíkir fundir eru haldnir tvisvar á ári og er vettvangur norrænu stjórnanna til þess að miðla hugmyndum og vinna að sameiginlegum viðburðum og baráttumálum. Fimm gestir frá Norðurlöndum munu sækja fundinn í Reykjavík.

Nánari upplýsingar og dagskrá má finna hér á fésbókarsíðu ASSITEJ

Fleiri fréttir