Beint frá hjartanu - Viðtal við Ernu Ómarsdóttur dansara og danshöfund

04. júl 2011

 Úr sýningunni The Talking Tree. Ljósmyndari: Luc Massin Viðtal mánaðarins á stage.is að þessu sinni er við einn af farsælustu dönsurum og danshöfundum landsins, Ernu Ómarsdóttur.  Stuttu eftir útskrift frá PARTS í Belgíu árið 1998, hóf hún vinnu með stærstu nöfnunum í evrópsku samtímadansenunni, til dæmis Jan Fabre (Erna dansaði sólóinn My Movements Are Alone Like Streetdogs sem var tilnefndur til “Benois de la Dance” verðlaunanna við Bolshoi leikhúsið í Moskvu árið 2002) og með Les Ballets C de la B og Sidi Larbi Cherkaoui (vann meðal annars að verkinu Foi). En það leið ekki á löngu fyrr en eigin verk hennar fóru að vekja athygli.

Hún hefur unnið oftar en ekki í samstarfi við tónlistarmenn, myndlistarmenn, leikstjóra auk annara danshöfunda og verk hennar hafa verið sýnd um alla Evrópu og verið mjög tekið á mörgum af virtustu leikhúsum og sviðslistahátíðum um allan heim. Erna hefur hlotið viðurkenningar í Ballet Tanz sem Outstanding Performer and Choreographer auk þess að hafa hlotið Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin árið 2003 og 2005.

Meðal nýjustu verka og verkefna hennar er sviðshljómsveitin Lazyblood sem Erna er í ásamt unnusta sínum, Valdimari Jóhannssyni, The Tickling Death Maschine (unnið var í samstarfi við hljómsveitina Reykjavík!), Teach Us How to Outgrow Our Madness (samið af hennar eigin flokki, Shalala, undir listrænni stjórn Ernu en verkið var nýlega frumsýnt á Kunstenfestival í Brussel og Julidans í Amsterdam), Transaquania – Into Thin Air samið fyrir Íslenska dansflokkinn og Við sáum skrímsli, unnið af Shalala. Meðal þekktustu verka hennar eru IBM - 1401, A User’s Manual og The Mysteries of Love sem voru unnin í samstarfi við tónskáldið Jóhann Jóhannsson og We are all Marlene Dietrich FOR, sem var unnið í samstarfi við leikstjórann Emil Hrvatin fyrir Íslenska dansflokkinn. Þessi verk hafa verið sýnd um alla Evrópu og verið boðið á margar af virtustu sviðslistahátíðum heims.

Ferill Ernu heldur áfram að blómstra, þar sem spennandi verkefni eru framundan, bæði á Íslandi, sem og erlendis. Stage.is mælti sér mót við Ernu til að ræða við hana um upphafið að þessu öllu saman og stöðu listdansins á Íslandi og Evrópu.

Ég held að það sé best að byrja á byrjuninni. Þú varst í fyrsta árgangnum sem útskrifaðist frá PARTS, en mörg ykkar sem voruð í þessum útskriftarárgangi hafið átt farsælan feril. Hvaða gildi telur þú að það hafi haft fyrir þig sem listamann og þinn feril að hafa farið í þann skóla?

Það skipti miklu máli og ég var mjög heppin að vera réttum stað á réttum tíma. Á þessum tíma stundaði ég nám í Rotterdam. Ég var ekki ánægð og á stað í lífinu þar sem ég efaðist um hvað ég væri eiginlega að gera. Það bjargaði mér að finna PARTS. Á þesssum tíma var námið ekki í eins föstum skorðum og við sem tilraunanemendur höfðum meira frelsi og tókum einnig þátt í mótun efnisins.

Þannig að veran í skólanum hjálpaði þínum ferli?

Já, alveg pottþétt. Brussel var líka svo mikill suðupottur í dansi á þessum tíma og maður hitti marga sem störfuðu í bransanum. Það hjálpaði mikið eftir útskrift. Ég held að það sé mjög erfitt að koma þangað núna sem atvinnudansari eða danshöfundur og hafa ekki neitt tengslanet í borginni.

Úr sýningunni IBM 401,  A User´s Manual. Ljósmyndari: Laurent Ziegler Þú byrjaðir að vinna með Jan Fabre mjög fljótlega eftir útskrift, hvernig var það?

Jú, um hálfu ári eftir útskrift og síðan tók vinnan með Les Ballets C de la B við. Bæði verkefnin voru mjög mikilvæg fyrir mig. Mér finnst þó miklu skemmtilegra í vinnunni núna heldur en þá. Núna fæ ég tækifæri til að skapa mín eigin verk og að vinna með góðu, skemmtilegu og yndislegu fólki. Það er kannski meiri vinna en ég fæ miklu meira út úr því sem manneskja og sem listamaður.

Nú eru um þrettán ár síðan þú útskrifaðist og síðan þá hefur þú unnið með mismunandi listamönnum og skapað fjölda verka. Telur þú þig orðin fullskapan danshöfund?

Ég held að ég verði aldrei fullskapaður danshöfundur. Ég fór að vinna mjög fljótlega eftir útskrift með stórum flokkum og með tímanum þá styrktist þessi þörf mín að vilja skapa sjálf og finna mina eigin leið til að skapa. Mér finnst ég vera að styrkjast sem skapandi listamaður en þetta er í rauninni endalaus þróun og lærdómur sem hættir aldrei.

En hverja telur þú hafa verið helstu áhrifavaldana á þína þróun?

Mínir áhrifavaldar er meira fólk sem ég umgengst heldur en verk sem ég sé. PARTS var áhrifavaldur og kennarar frá þeim tíma, til dæmis leikstjórinn Jan Ritsema. Einnig fólkið sem ég vinn með eins og Jóhann Jóhannsson, Gabríela Friðriksdóttir, Damien Jalet, Valdimar Jóhannsson og fleira gott samstarfsfólk. Síðan er það auðvitað líka vinir og fjölskylda – mér finnst þeir einstaklingar alveg jafn miklir áhrifavaldar á mig og Jan Fabre og Anna Theresa De Keersmaaker. Ég man líka sérstaklega eftir verkinu May B eftir Maguy Marin sem ég sá á Listahátíð í Reykjavík 17 eða 18 ára gömul. Á þessari sýningu uppgötvaði ég, að það væri hægt að það tjá sig MEÐ líkamanum. Dans snerist ekki einungis um að hreyfa líkamann og stíga spor, líkaminn gæti verið tæki til að segja það sem manni liggur á hjarta. Síðan verð ég líka fyrir áhrifum úr öðrum lístgreinum og sérstaklega frá bíómyndum og tónlist. Síðan verð ég líka fyrir áhrifum frá öfgunum í lífinu, hlutir sem maður upplifir í samfélaginu og innra með manni. En síðan setur maður þessi áhrif í oft öfgakenndan og leikrænan búning, og það sem ég skapa er ekkert endilega mínar skoðanir, eða hver ég er sem manneskja. 

Nú, Þegar þú lítur yfir ferilinn, er eitthvað sem er þér minnistæðara en annað?

Núna stendur, líklega því það stendur mér næst, þau verk sem ég hef starfað við upp á síðkastið. Við sáum skrímsli, Transaquania – Into Thin Air og Lazyblood. Ég er aldrei almennilega ánægð með loka útkomu verkanna, það er alltaf eitthvað sem mér finnst ég hefði getað gert betur. En þetta er endalaus þróun og alltaf eitthvað sem mætti fara betur. En með þessum verkefnum finnst mér ég vera að fara í rétta átt. En mér þykir vænt um flest öll verkin og samstörfin sem ég hef átt hingað til, þótt það hafi oft gengið á ýmsu.

Úr sýningunni Transaquania - Into Thin Air. Ljósmyndari: Golli. Nú er mikið talað um hina íslenska orku og tengingu Íslendinga við náttúruna, lýsing sem er oft til dæmis notuð um Björk, en einnig til að lýsa þér og þínum verkum. Finnst þér þetta vera klisja eða er sannleikskorn í þessu?

Ég held að þetta sé satt og ég held að það hafi áhrif að alast upp á eyju út í norðri. Við höfum alla þessa náttúru og víðáttu, en á sama tíma búum við í mjög litlu samfélagi. Maður upplifir innilokunarkennd og víðáttubrjálæði á sama tíma. Þessar öfgar eru líka mjög ríkjandi í náttúrunni, til dæmis hin mikla birta á sumrin og myrkrið á veturna. Mér finnst ég vera mjög heppin. Ég hefði alls ekki viljað alast upp annars staðar en á Íslandi. Ég er sjálf mjög væmin með þetta. Mér finnst dásamlegt að vinna á Íslandi og vera á Íslandi. En það er líka mjög gott að geta farið og unnið og sýnt erlendis. 

En heldur þú að það sé til eitthvað sem væri hægt að kalla “íslenskan dans”?

Það er einhver orka sem dansararnir hér hafa, eitthvað íslenskt, ef það er hægt að kalla það svo. Það eru líka margir íslenskir danslistamenn að gera það gott erlendis, þannig að útlendingum finnst greinilega eitthvað sérstakt við íslenska dansara. Þegar kemur að íslenskum verkum þá þarf að sýna þeim meiri athygli hérna heima. Dansinn er auðvitað alþjóðlegt tungumál og við ættum að geta gert eitthvað magnað. En greinin þarf meira fjármagn til að geta haldið starfseminni gangandi og vonandi breytist það á komandi árum.

Þú hefur verið að vinna mikið hérna heima – er minna að gera í Evrópu? Eða langar þig að vinna á Íslandi?

Núna vil ég vera á Íslandi - og vinna á Íslandi. Bæði vil ég vera nærri fjölskyldunni og svo finnst mér vera góð orka og ótrúlega skemmtilegt að vinna hér heima. Stundum hef ég hugsað um að flytja frá Brussel en það er hættulegt fyrir mig að flytjast alveg. Það er nauðsynlegt að halda tengslum við senuna í Evrópu, bæði vegna þess að það er ekki nóg að gera hér á Íslandi og líka vegna þess að hluti af fjármagni fyrir verkin sem ég vinn að kemur erlendis frá.

En hér á Íslandi þá rennur 90% af fjármagni til sviðslista til stofnanaleikhúsana og 10% til sjálfstæðu leikhúsanna. Hvað finnst þér um þá staðreynd?

Úr sýningunni Við sáum skrímsli. Ljósmyndari: Nanna Dís. Það er auðvitað ekki nógu gott. Sjálfstæðu leikhúsin eru þegar að gera frábæra hluti fyrir mjög lítið fjármagn og það ætti að styðja meira við þau. Ég finn mikinn mun á viðhorfi til sviðslista hér heima og í Belgíu. Þar er mikil virðing fyrir dansi og sviðslist og meiri áhersla á tilraunastarfsemi og þróun, heldur en hér heima.

En hvernig finnst þér íslenskir dansáhorfendur? Eru þeir meira opnir fyrir dansi en þegar þú byrjaðir?

Það örlar enn á  fordómum gagnvart dansi. Margir hafa ekki uppgötvað hversu opið og fjölbreytt listformið er. Danslistin er líka listform þar sem allar listgreinarnar geta komið saman og skapað dásamlega heild. Danslistin er listform þar sem hægt er að tjá hluti sem ekki er hægt að tjá með orðum. En hræðslan við að fara og skilja ekki neitt vera enn ríkjandi. Það er hræðsla sem fólk þarf að losa sig við því það þarf ekkert að skilja, bara að upplifa og njóta. Greinin er auðvitað ung hérna heima en mér finnst samt meiri áhugi og meiri forvitni. Síðan er yndislegt þegar maður nær að kveikja í fólki sem er ekki vant að sjá danssýningar. Það er mér mjög mikils virði.

Gætir þú hugsað þér að stofna danshóp með bækistöð á íslandi ef þú hefðir til þess fjármagn og aðstöðu?

Já, það væri alveg draumur og vonandi rætist það einhvern tímann. Það er samt dýrt að vera búsettur á Íslandi. Ég finn fyrir því þegar meirihluti dansara í verkunum mínu eru búsettir á Íslandi. Þá er erfiðara að selja verkin því flugin eru dýrari frá Íslandi og stundum hefur verið hætt við að kaupa verk út af þeirri ástæðu. En vonandi verður það betra í framtíðinni.

Við hófum spjallið okkar á að ræða um hvernig þetta byrjaði allt saman. Því er vel við hæfi á að enda á því að biðja þig um að rýna inn í framtíðina?

Næst á dagskrá hjá mér er að sýna verkið Teach us How to Outgrow our Madness á Julidans í Amsterdam. Eftir það þá tekur við stærsta verkefnið mitt hingað til og það lengsta, en það er að fæða barnið mitt. Mjög stórt verkefni, en ég og Valdi (unnusti hennar) erum mjög spennt. Við höfum ekki gert nein stór plön, við munum bara taka skref fyrir skref. 

Lazyblood á tónlistarhátíðinni Reykjavík Music Mess. Ljósmyndari: Þórir Benedikt Björnsson Hvað varðar íslensku danssenuna, þá er  Íslenski dansflokkurinn er mikilvægur því það þarf að vera einn opinber dansflokkur. Dansverkstæðið er góð byrjun og vonandi vísir að Danshúsi. Það vantar þó fleiri rými sem gera ráð fyrir danssýningum. Dansdeild Listaháskóla Íslands hefur einnig verið að gera góða hluti og mjög kraftmiklir og efnilegir nemendur hafa útskrifast þaðan, auk þess að fá til sín mjög eftirsótta samtímadanskennara og listamenn úr bransanum hingað til lands. Það væri óskandi að þessir hópar sem eru starfandi núna, fengju betri aðstöðu og fjármagn til að þróa sig áfram. Það er mjög efnilegt fólk starfandi hér núna sem og mikill kraftur innan danssamfélagsins. Og ef lífinu er ekki viðhaldið í þessum krafti þá deyr hann og þá er erfitt að vekja hann upp aftur.

Síðan finnst mér að fólk ætti að dansa og syngja meira, auk þess að fara meira í leikhús og uppgöva dans – ég skil ekki af hverju fólk hefur ekki enn kveikt á því!

Meiri upplýsingar um Ernu Ómarsdóttur; www.ernaomarsdottir.com

Viðtal: Ásgerður G. Gunnarsdóttir

Fleiri fréttir