Gríman 2013 - Tilnefningar opinberaðar 30. maí í Þjóðleikhúsinu

28. maí 2013

grimanet

Tilnefningar til Grímunnar 2013 – íslensku sviðslistaverðlaunanna - verða kunngjörðar fimmtudaginn 30. maí kl 16:30 frá stóra sviði Þjóðleikhússins.

63 verk voru tilnefnd af leikhúsum og sviðslistahópum til Grímuverðlauna í ár. Þar af voru 7 útvarpsverk, 13 dansverk og 43 sviðsverk.

Fjórar valnefndir starfa árið um kring á vegum Grímunnar, valnefnd sviðsverka, valnefnd dansverka, valnefnd barnaverka og valnefnd útvarpsverka. Nefndirnar velja 5 einstaklinga eða verk í hverjum verðlaunaflokki í forvali Grímunnar er hljóta tilnefningu. Í aðalvali velja nefndir sigurvegara í hverjum flokki og verða verðlaunin veitt við hátíðlega athöfn í beinni útsendingu á Rúv þann 12. júní, frá stóra sviði Þjóðleikhússins

Tilnefnt er í 18 verðlaunaflokkum; sem eru:

Sýning ársins, leikrit ársins, leikstjóri ársins, leikari og leikkona í aðalhlutverki, leikari og leikkona í aukahlutverki, leikmynd, búningar og lýsing ársins, tónlist og hljóðmynd ársins, söngvari, dansari og danshöfundur ársins, útvarpsverk ársins og sproti ársins sem hóf göngu sína á síðasta ári.

Að auki eru árlega veitt heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands. Heiðursverðlaunin eru veitt einum einstaklingi er þykir hafa skilað framúrskarandi ævistarfi í þágu sviðslista á Íslandi. Nítjandi verðlaunaflokkurinn, Barnasýning ársins fellur niður í ár þar sem fjöldi frumsýndra verka var ekki nægjanlegur samkvæmt reglum Grímunnar.

Gríman - íslensku sviðslistaverðlaunin 2013 - verður haldin hátíðlega 12. júní nk. og er kynnir hátíðarinnar og tilnefningarathafnarinnar í ár leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir.

Tilnefningar verða opinberaðar sem fyrr segir 30. maí kl 16.30 í Þjóðleikhúsinu og eru allir velkomnir.

Fleiri fréttir