Hátíð í bæ - Lókal og Reykjavík Dance Festival haldnar hátíðlegar í september

08. ágú 2011

Úr A Provocation, Pure and Simple, eftir Anat Eisenberg og Sögu Sigurðardóttur. Sýnd á Reykjavík Dance Festival 2010.  Í byrjun september mun sviðslistahátíðaralda skella á Reykjavík, en 1. - 4. september verður leiklistarhátíðin Lókal haldin og beint þar á eftir, 5. - 11. september tekur Reykjavík Dance Festival við.

Því fannst stage.is tilvalið að kynna sér hátíðarnar betur og mælti sér mót við þær Ragnheiði Skúladóttur frá Lókal og Steinunni Ketilsdóttur frá Reykjavík Dance Festival til ræða við þær um hátíðarnar tvær, stöðu þeirra í íslensku sviðslistalífi, upphaf og framtíðardrauma.


Þessar tvær hátíðir eru einu dans- og leiklistarhátíðarnar á Íslandi - hver eru markmið og tilgangur þeirra?

Ragnheiður: Lókal er leiklistarhátíð í Reykjavík og eins og þú segir, eina hátíðin sem sinnir innlendri og erlendri og atvinnuleiklist á Íslandi. Hún hefur haft tvö markmið frá upphafi; Í fyrsta lagi að kynna íslenska leiklist fyrir erlendum áhorfendum og hátíðum og í öðru lagi að kynna erlenda leiklist fyrir íslenskum áhorfendum.

Steinunn: Reykjavík Dance Festival er fyrst og fremst danshátíð fyrir sjálfstætt starfandi íslenska dansara og danshöfunda. Hátíðin hefur það að markmiði að skapa vettvang fyrir íslenska danslistamenn til að sýna verk sín. Við höfum einnig mikinn áhuga á að að flytja inn meira af erlendum verkum í framtíðinni og kynna þau fyrir íslenskum dansáhugamönnum. Við viljum að áhorfendur hátíðarinnar sjái hvað er að gerast hérna á Íslandi, sem og í Evrópu. Það er mikilvægt að íslensk danssmíð sé skoðuð í alþjóðlegu samhengi og það er nauðsynlegt og hollt fyrir sviðslistasamfélagið og og áhorfendur að hafa alþjóðlegar viðmiðanir.

Nú er Lókal mun yngri en Reykjavík Dance Festival - hvenær og hvernig var Lókal stofnuð?

Ragnheiður: Við vorum þrír einstaklingar sem stofnuðum hátíðina árið 2008. Ég, Bjarni Jónsson og Guðrún Guðmundsdóttir. Hugmyndin spratt upp frá því að okkur langaði til þess að fá leiklistarmanninn Richard Maxwell og hóp hans, New York City Players, til að sýna á Íslandi. Við hugsuðum með okkur, að ef við ætluðum að fara út í þá framkvæmd að flytja þá inn, af hverju flytjum við ekki inn fleiri og stofnum hátíð?

Reykjavík Dance Festival var hins vegar stofnuð árið 2002. Telur þú hátíðina hafa breyst á þessum níu árum?

Steinunn: Hún hefur stækkað mjög mikið. Í upphafi voru þetta sex danshöfundar sem tóku sig saman og ákváðu að skapa vettvang til að sýna verkin sín. Fleiri bættust síðan í hópinn og hefur hann verið síbreytilegur frá ári til árs. Í ár eru níu manns í nefnd hátíðarinnar. Hún hefur verið mjög breytileg og á hverju ári hefur hún lagað sig að aðstæðum það árið. Eitt árið var til dæmis mjög lítið fjármagn og var því ákveðið að allir danshöfundarnir myndu skapa sóló fyrir sjálfan sig. Annað árið gátum við búið til leikhús í gamalli verksmiðjurými. Við sníðum okkur stakk eftir vexti á hverju ári sem og að reynum að vera í góðu samstarfi við þá sem taka þátt.

Hefur Lókal ákveðið þema eða þemu frá ári til árs?

Ragnheiður: Það eru í raun engin meðvituð þemu. Við leitumst ávallt við að fá verk sem okkur finnst spennandi og það kemur ákveðin heild út úr því. Við fengum líka ágætis brautargengi frá byrjun frá ríki og borg og einnig frá einkaaðilum. En fyrir hátíð númer tvö árið 2009 þá hafði einkafjármagnið gufað upp vegna hrunsins. Það árið buðum við aðallega upp á íslenska leiklist og lögðum áherslu á að fá erlenda listræna stjórnendur hingað sem var ekki áhersla árið áður. Það tókst rosalega vel og var mjög þakklátt af hendi listrænu stjórnendanna, að geta komið til Íslands og séð íslenskt leikhús.

Í fyrra vorum við með norrænan glugga, ef það er hægt að kalla það svo. Ég held að við Íslendingar höfum tilhneigingu að vilja alltaf leita lengra, til New York, Berlin, París, Brussel. Við leitum lítið til Stokkhólms, Kaupmannahafnar eða Osló. Það kom okkur því á óvart hvað það var svakalega góð og framúrstefnuleg leiklist í boði á Norðurlöndunum sem og hversu vel henni var tekið hér heima. Við höfum haldið áfram með norrænu víddina og í ár og bjóðum við upp á tvær norrænar sýningar, Við erum einnig að meðframleiða verk, sem er eitthvað sem við viljum gera meira af í framtíðinni. Eitt verkið, The Island, er samstarf við Núna(Now) hátíðina í Winnipeg. Hitt verkið er samnorrænt verkefni sem heitir School of Transformation, sem er samstarfsverkefni Herbergis 408 frá Íslandi og Mobile Homes frá Noregi.

Úr sýningunni No Dice, eftir The Nature Theatre of Oklahoma, sýnt á Lókal 2008. Ljósmynd: Peter Nigrini. Hvað hafið þið í huga, þegar þið veljið verk á hátiðina og listamenn til að vinna með?

Ragnheiður: við erum alltaf með í huga, bæði varðandi innlendu og erlendu verkin, að þau séu áhugavert og markvert framlag til leiklistar. Einnig höfum við beint sjónum okkar frekar að sýningum þar sem hópurinn býr til verkið í sameiningu. Við höfum áhuga á þenkjandi listamönnum sem spyrja sig spurninga sem og hópum sem hafa unnið saman í svolítinn tíma og staðið við sína leit. Það á við íslensku hópana Kviss búmm bang, 16 elskendur og Ég og vini mína sem hafa allir sýnt á hátíðinni við mikla lukku.

En hjá Reykjavík Dance Festival? Hvernig eru listamennirnir valdir?

Steinunn: Reykjavik Dance Festival er stýrt af listafólkinu sem hefur byggt hana upp og markmið okkar era að þjóna sem best sjálfstæða danssamfélaginu. Að baki hátíðarinnar býr sú hugsjón að vinna fyrir heildina, sýna breidd í verkefnavali og sýna áhorfendum fjölbreytileikann sem býr í dansinum. Auk þessa að vera hátíð danshöfunda sem starfa mest hér heima viljum við skapa vettvang fyrir okkar frábæra listafólk sem starfar mest erlendis, til að sýna hér heima. Má þar m.a. nefna Margréti Söru Guðjónsdóttur, sem hefur gengið mjög vel erlendis sem og Ernu Ómarsdóttur. Jafnframt viljum við að hátíðinni sé vettvangur fyrir danslistamenn sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Úr Soft Target, eftir Margréti Söru Guðjónsdóttur, frumsýnt á Reykjavík Dance Festival 2010. Ljósmyndari: Anna Van Kooij En hver teljið þið að áhrif Lókal og RDF hafi verið á á íslenskt sviðlistaumhverfi?

Ragnheiður: Áhorfendafjöldi okkar hefur farið stígvaxandi og hefur aukist um 70% frá árinu 2008 og á hverju ári hafa íslenskum verkum verið boðið út. Sem dæmi þá fór sýningin Húmanimal til Núna(Now) í Kanada árið 2009 og nú eru Kviss Búmm Bang nýkomnar heim frá Vín, en þær sýndu á Vien Festwochen. Þannig að áhrif Lókal eru greinileg. Það er einnig nauðsynlegt fyrir unga hópa líkt og Kviss Búmm Bang að fá tækifæri til að sýna erlendis, að það er hætta á því að ögrunin fyrir unga listamenn sé ekki nægileg hér á Íslandi. Það er eðlilegt, því leikvöllurinn hér á landi er svo lítill. Því er nauðsynlegt að aðstoða hópa við að sýna verkin erlendis, svo þeir sjái möguleikana. Sem dæmi, þá er hópurinn að fara á fjórar hátíðir í ár. Og það hlýtur að vera hvatning fyrir ungt sviðslistafólk sem er við það að útskrifast eða er nýútskrifað, að sjá ungu sviðslistafólki ganga vel á erlendri grundu.

Steinunn: Það kom upp hugmynd hjá okkur árið 2007 að fá til landsins listræna stjórnendur því við vildum skapa tengingar við meginland Evrópu. Það árið komu þrír listrænir stjórnendur. Og við náðum strax að vekja athygli á erlendri grundu. Hátíðin hefur nú síðustu þrjú árin náð að setja sig í evrópskt samhengi og manneskjur innan geirans vita af okkur. Í kjölfarið hafa listamönnum verið boðið á hátíðir og á hverju ári er einhverjum boðið áfram, til dæmis Samsuðan & Co, Magga & Saga, Steinunn & Brian, Margréti Söru og það nýjasta er verkið Provocation, Pure and Simple sem var sýnt í fyrra, því var boðið á Núna(Now) nú í vor. Það má því segja að það hafi opnast ákveðnir möguleikar og tengsl myndast við danssenuna í Evrópu og á Norðurlöndunum. Við höfum fengið listræna stjórnendur frá Svíþjóð, Þýskalandi, Bretlandi, Belgíu, Írlandi og Danmörku. Hátíðin er því komin með gott tengslanet sem er okkur mikilvægt.

Úr sýningunni The Great Group of Eight eftir Kviss Búmm Bang, frumsýnd á Lókal árið 2010 Hvernig gengur að fá erlenda aðila að heimsækja Ísland? Eru fólk áhugasamt um sviðslistastarfsemi á þessari litlu eyju okkar?

Ragnheiður: já, allir eru mjög áhugasamir og Ísland er heillandi staður heim að sækja. En það þýðir að við þurfum að bjóða þeim á góða hátíð svo þessir einstaklingar vilji koma aftur. Það er líklegast mikilvægasti punkturinn. Slíkt kostar auðvitað peninga. Það kostar sitt að ferðast og viða að sér efni, flytja inn verk, borga ferðir, hótel og sýningarþóknun og eins og stendur erum við að gera þetta fyrir helminginn af því fjármagni sem við ættum að vera að nota. Hátíðin þarf einnig starfsmann í fullt starf því hingað til höfum við verið þrjú í hjáverkum að vinna að henni.Hún hefur fengið góðan stuðning frá ríki og borg frá ári til árs en óskin er að fá samstarfssamning til nokkurra ára.

Úr sýningunni Crazy in Love with MR.PERFECT eftir Steinunni & Brian, frumsýnd á Reykjavík Dance Festival árið 2007. 
En að vera sjálfstætt starfandi dansari á Íslandi og vilja koma sér á framfæri - hvernig er það?

Steinunn: Það er augljóst að það er erfitt fyrir okkur að vera afskekkt á lítilli eyju norður í Atlantshafi og erum einangruð. Það er flóknara að sýna sig og sjá aðra. Ef einhver vill fá íslenskt dansverk sem er gert af listamönnum sem starfa hér á landi, þá borgar sá hinn sami helmingi meira fyrir dansverkið heldur en til dæmis verk frá Brussel. Því má segja að það er mikil skuldbinding fyrir danslistamenn að taka þá ákvörðun að búa hér á Íslandi.

Er mikið um erlenda gesti að sýna á Reykjavík Dance Festival í ár?

Steinunn: Samstarfsverkefni eru áberandi. Í ár munu til dæmis John the Houseband, sýna verk sem er sambland tónleika og danssýningar. Margrét Sara Guðjónsdóttir mun sýna nýtt verk í vinnslu í samstarfi við þýska dansarann Laura Siegmund. Síðan mun sænski danshöfundurinn Alma Söderberg sýna verkið sitt Cosas, en það verk var valið inn í Aerowaves hópinn og hefur hún verið að ferðast um allan heim með það við góðar undirtektir og það er mjög gaman að geta boðið upp á það.

Úr sýningunni Húmanimal, eftir Mig og vini mína, sýnd á Lókal árið 2009 Hvar sjáið þið hátíðarnar fyrir ykkur í framtíðinni?

Ragnheiður : Ég sé Lókal ekkert endilega stærri. Ég sé hins vegar fram á meira samstarf við Reykjavík Dance Festival, því það að hafa hátíðarnar á sama tíma hefur verið mjög gjöfult undanfarin ár varðandi erlenda áhorfendur. Þetta er lítill heimur og hátíðirnar eru nálægt hvor annarri listrænt séð en húsnæðisskortur hefur hamlað frekara samstarfi. Við viljum einnig frumsýna sem mest af íslenskum verkum sem og bjóða upp á ný erlend verk. Einnig myndi ég vilja sjá hátíðina meðframleiða fleiri verk og jafnvel framleiða með öðrum hátíðum. Það er ekki bara mikilvægt fyrir okkur að listamennirnir séu í samtali við aðra listamenn heldur einnig að hátíðin sé í samtali við aðrar hátíðir og við í samtali við samstarfsfélaga okkar erlendis. Svo vil ég að á tíu ára afmælinu hættum við að kalla okkur “litlu” leiklistarhátíðina - Við erum ágætlega stór leiklistarhátið! Og á tíu ára afmælinu þá sleppum við því forskeyti!

Steinunn: Það sem að ég myndi vilja sá er að hátíðin fengi meira fjármagn og meiri festu. Það er alltaf mikið happadrætti á hverju ári hve mikið fjármagn hátíðin hlýtur. Til lengdar er erfitt að vita ekki fjárhagsstöðu ársins fyrr en úthlutað hefur verið á hverju ári fyrir sig. Það væri óskandi að hátíðin hlyti samstarfssamning við ríki og borg þannig að hátíðin gæti staðið undir daglegum rekstri og starfað allt árið um kring. Einnig væri gaman að geta boðið fleiri erlendum hópum, það er svo ótrúlega hollt og mikill innblástur að sjá verk frá öðrum en Íslendingum. Hins vegar myndi ég ekki vilja breyta formi hátíðarinnar, hún er rekin af danslistamönnum og það eru listamennirnir sjálfir sem taka allar helstu listrænar ákvarðanir. Einnig er hún persónuleg og ég myndi vilja halda áfram í þá stemmningu og tilfinningu. Ef finnum jafnvægi milli grasrótartilfinningar en með ákveðinni umgjörð og festu og náum að blómstra árið um kring, þá held ég að framtíð íslensks dans sé ótrúlega björt!

Fyrir meiri upplýsingar: 

Lókal: www.lokal.is

Reykjavík Dance Festival: www.reykjavikdancefestival.is

Viðtal: Ásgerður G. Gunnarsdóttir

Fleiri fréttir