Hátíðin - The Festival í Reykjavík 10.-11. nóvember 2012

07. nóv 2012

The Festival mynd

Fyrsta hátíð The Festival: The Public Live Art Second Chance Fund verður haldin 10. - 11. nóvember næstkomandi í Þjóðmenningarhúsinu. The Festival er ekki hefðbundin sviðslistahátíð eins og landsmenn eru vanir. Hver hátíð verður einstök og öðruvísi, og í samstarfi við mismunandi einstaklinga og stofnanir innan sviðslistanna á Íslandi. Hugmyndin um hvað hátíð innan sviðslista er og á að vera og mun vera, verður kryfjuð á The Festival. Meginmarkmið hátíðarinnar er þó ávallt að skapa grundvöll fyrir sviðslistafólk á Íslandi, efla og auka nýsköpun og tilraunamennsku auk þess að styrkja, efla, víkka út og leggja áherslu á orðræðu sviðslista á Íslandi og víðar.

Á The Festival hefur sviðslistamönnum verið boðið að senda inn umsóknir fyrir verk sem þegar hafa hlotið neitun eða ekki hlotið svar frá öðrum styrkjakerfum. Þann 10. nóvember mun valnefnd koma saman í Þjóðmenningarhúsinu, fara yfir umsóknirnar og velja eitt verk sem verður styrkt af The Festival að upphæð 200.000 krónur auk þess að eiga möguleika á að sýna verkið í einni útgáfu eða annarri á framtíðar The Festival.

Markmið The Public Live Art Second Chance Fund er að gera valferli sviðslistaverka opinbert. Örfá sviðslistaverkefni hljóta opinbera styrki á ári hverju og valferlið að baki þeim er ógagnsætt. Því er það markmið The Festival ekki einungis að veita einu verki styrk, heldur til að skapa vettvang þar sem áhorfendum og listamönnum er boðið að koma saman og ræða um orðræðu sviðslista, hvaða aðferðir notum við til að gefa sviðslistum gildi og hvaða rök eru ríkjandi þegar kemur að því hvaða verk eru valin og hver ekki.

Almenningi er boðið að taka þátt í valferlinu og vera partur af valnefndinni. Hafi einstaklingar áhuga, má staðfesta þátttöku með því að senda póst á thefestival@thefestival.is.

Dagskrá hátíðarinnar er eftirfarandi;

Laugardagurinn 10/11/2012 :10:00 -17:00 -Valferlið fer fram

Sunnudagurinn 11/11/2012 :11:00 -13:00

Styrkjakerfi til framtíðar - Future Funding Bodies

-Málþing og stefnumótunarfundur um styrkjakerfi lista á Íslandi-

Sunnudagurinn 11/11/2012 :15:00 -16:00

Útvalda verkið tilkynnt

The Festival er styrkt af Reykjavíkurborg og Ungu fólki í Evrópu.

Nánari upplýsingar um The Festival og The Public Live Art Second Chance Fund má finna á
<www.thefestival.is>

Fleiri fréttir