Herdís Þorvaldsdóttir handhafi heiðursverðlauna LSÍ Látin

Kveðja frá Leiklistarsambandi Íslands

09. apr 2013

Karma fyrir fugla Kristbjörg Kjeld, Herdís Þorvaldsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Hilmir Jensson

Herdís Þorvaldsdóttir leikkona og handhafi heiðursverðlauna Leiklistarsambands Íslands lést 1. apríl síðastliðin 89 ára að aldri. Útför hennar fer fram í dag, þann 9. apríl.

Herdís fæddist 15. október árið 1923 í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru Þorvaldur Tómas Bjarnason og María Víðis Jónsdóttir. Herdís stóð fyrst á leiksviði í Gúttó í Hafnarfirði aðeins níu ára gömul og sautján ára lék hún í fyrsta sinn með Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó.

Herdís nam leiklist hjá Lárusi Pálssyni og Haraldi Björnssyni og 1945 fór hún til London og nam við The Royal Academy of Dramatic Art (RADA). Herdís lék Snæfríði Íslandssól í Íslandsklukkunni, einni af opnunarsýningum Þjóðleikhússins árið 1950 og starfaði þar upp frá því til dauðadags. Hún fór þar með fjölmörg aðalhlutverk, svo sem titilhlutverkið í Önnu Christie, Lóu í Silfurtúnglinu, Geirþrúði drottningu í Hamlet, frú Smith í Sköllóttu söngkonunni, Maggí í Eftir syndafallið, titilhlutverkið í Candidu og fröken Margréti í samnefndum einleik.

Herdís giftist Gunnlaugi Þórðarsyni hæstaréttarlögmanni sem lést 20. maí 1998. Börn þeirra eru Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður, Þorvaldur Gunnlaugsson stærðfræðingur, Snædís Gunnlaugsdóttir lögfræðingur og Tinna Gunnlaugsdóttir, leikkona og þjóðleikhússtjóri. Barnabörn Herdísar og Gunnlaugs eru 17 og barnabarnabörnin 16.

Herdís lék áfram eftir að hún fór á eftirlaun, meðal annars móður Jóns Hreggviðssonar í síðustu uppfærslu á Íslandsklukkunni á 60 ára afmæli Þjóðleikhússins. Aðeins viku fyrir andlát sitt, þann 23. mars sl., stóð Herdís á leiksviði í verkinu Karma fyrir fugla, sem sýnt er í Kassa Þjóðleikhússins. Glæsilegur leiklistarferill Herdísar spannaði því um áttatíu ár þegar allt er talið.

Herdís hlaut ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar á ferlinum þ.á.m. heiðursverðlaun Leiklistarsambandsins árið 2007.

Leiklistarsamband Íslands sendir aðstandendum og samstarfsfólki Herdísar innilegar samúðarkveðjur.

Fleiri fréttir