Hver er ég? - Þorleifur Örn Arnarson

04. apr 2011

Þorleifur Örn Arnarson hefur á skömmum tíma náð árangri og athygli sem leikstjóri erlendis, sérlega í hinum þýskumælandi heimi. Fyrr á þessu ári hlaut uppfærsla hans á Pétrí Gaut eftir Ibsen, sett upp í borgarleikhúsinu í Luzern í Sviss, gríðarlega mikla viðurkenningu í gegnum leikhússíðuna www.nachtkritik.de . Þorleifur er bókaður tvö ár fram í tímann og fram undan eru verkefni á borð við Mutter Courage und ihre Kinder eftir Brecht, sjálfur Lér konungur og óperan Leðurblakan eftir Johann Strauss. Þorleifur nam við hinn virta leikhússkóla Ernst Busch í Berlín og útskrifaðist þaðan 2008.

Fyrsta viðtal nýrrar heimasíðu Leiklistarsambands Íslands er við Þorleif.

úr uppfærslu Þorleifs Þorleifur til hamingju með árangurinn að undanförnu, en hvernig er það, skýrðu þetta aðeins út fyrir okkur, fékkstu þýsku Grímuna? „Nei, ekki alveg, en þó ekki síðri viðurkenningu. Nachtkritik.de er stærsta samkomustaður þýska leikhússheimsins en að síðunni standa yfir 40 leikhúskritíkerar, leikhúsfræðingar og dramatúrgar. Síðan er langvinsælasta “portal” fyrir leikhúsumfjöllun í hinum þýskumælandi heimi. Aðstandendur síðunnar tilnefndu í heild 38 sýningar - af líklega um 500-700 sem birtir voru dómar um – og svo var notendum síðunnar gefinn kostur á því að kjósa á milli sýninga - og mynda nokkurs konar "Virtual Theatertreffen". Öllum á óvart lenti sýningin okkar í efsta sæti þessarar kosningar – sem sagt valin “best sýning ársins” af www.nachtkritik.de . Valið kom gríðarlega á óvart en var ákaflega gleðilegt fyrir okkur og leikhúsið í Luzern.”

Svo “fræðingarnir” völdu uppfærsluna sem eina af bestu 38 sýningum ársins, úr hundruð sýninga í Þýskalandi, Austuríki og Sviss, og sigraði bara litla Luzern í áhorfendakosningu? “Já, í boði voru margar af stærstu uppfærslum ársins, sýning frá “leikhúsi ársins “ í Köln og fleiri stórsýningar. Atkvæðin komu úr öllum áttum, svo virðist sem einhvers konar grasrótarbylgja hafi farið af stað sem fór mjög viða. Mjög gaman! ! “

Pétur þú lýgur, eru ekki aðeins fyrstu orð þessara uppsetningar heldur leiðarljós hennar líka" – segir í einum leikdómnum. Þorleifur, er þetta rétt lýsing? “Við unnum út frá kjarnaspurningunni “ Hver er ég?” Við lékum verkið í lokuðu herbergi þar sem allir er alltaf viðstaddir. Herbergi sem geymir minningar um sannleikann/lygina úr ævi Péturs Gauts. Í þessu herbergi birtist ævi Péturs Gauts honum og hann er neyddur til að horfast í augu við sjálfan sig, lygarnar, en honum eur birtar senur eins og þær raunverulega gerðust, hver á fætur annarri. Undir lokin þolir sá gamli ekki lengur við og í örvæntingu reynir hann að komast burt, brjótast út úr leikhúsinu sjálfu.”

Þú lékst sjálfur í Pétri Gaut í Þjóðleikhúsinu, sem barn – hefur verkið fylgt þér síðan? “Heldur betur, verkið og þessi spurning; Hver er ég? ... er ég sá sem ég held að ég sé ? er búin að malla innra með mér í yfir 20 ár. Ég man ennþá heilu senurnar, tónlistina, áhrifin úr sýningunni heima árið 1991. Ég var 12 ára. HVER ER ÉG? – er hægt að spyrja stærri spurningar? Við tökumst öll á við hana, á einn eða annan hátt, sem einstaklingar, sem hópur, sem þjóð. Þetta er sannarlega spurning sem ég er búinn að vera að berjast við í mínu eigin lífi.”

Þú hefur valið leikhúsið sem starsfsvettvang, er svörin að finna þar? “Já, ég hef gríðarlega trú á leikhúsinu sem miðli. Hver leikhúsmaður held sífellt að reyna að endurspegla sýn sína á lífið og þegar vel tekst til eru svör leikhússins gríðarlega sterk. Leikhúsið er alltaf tilbúningur en upplifun hvers og eins getur veirð óendanlega sterk og sönn. Leikhúsið er svona nálægt og þar eru lifandi manneskjur sem fara með þér í ferðalag Í þessum tæknivædda heimi þar sem mannleg samskipti í þjónustu eru að hverfa, tæki að taka yfir og fólk getur haft samskipti í gegnum sýndarveruleika, þá verður leikhúsið sem samfélagslegur vettvangur, sífellt mikilvægara. Ekki bara til að fræða, skemmta, hleypa okkur nær arfi okkar og sögu heldur getur leikhúsið sameinað okkur, í ferð, í heimi þar sem hinn samfélagslegi staður er að hverfa. Erindi leikhússin við samtíma sinn er ákaflega mikilvægt.

Finnst þér leikhúsið standa undir erindinu? “Oft finnst mér það gera það. Það sem erfitt heima á Íslandi er að þar er oft ekki skilið milli afþreyingar og lista. Ég held að það helgist af skorti á akademískri umræðu um leikhús, við eigum ekki sérmenntaða gagnrýnendur, þeir gagnrýnendur sem starfa fá lítinn tíma til að vinna verk sín. Því verði umræðan frekar skoðanaskipti en raunveruleg, djúp greining á hlutverki leikhússins. Hér í Þýskalandi eru þrjú mánaðarleg mjög sterk fagtímarit, hundruð menntaðra gagnrýnenda sem skrifa þúsundir dóma á ári í gríðarlegan fjölda dagblaða og tímaríta yfir 100 skólar sem mennta fólk, vel á annað annað hundrað leikhús sem sýna árið um kring. Í þessari miklu flóru gefst tækifæri til miklu dýpri umræðu um leikhúsið og listina heldur en í okkar litla samfélagi heima.

úr uppfærslu Þorleifs Telur þú að íslenskir áhorfendur vilji dýpri samræðu og greiningu um leikhúsið? Já, það stórkostlega er að Íslandi er leikhúsið ennþá leikhús alþýðunnar, við eigum það öll og sækjum það öll. Það er svo stutt síðan við byggðum Þjóðleikhús til að staðfesta sjálfstæði okkar , staðfesta sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Nú stöndum við aftur frammi fyrir því að þurfa að skilgreina, að nýju, hver við erum. Það er ekki tilviljun að öll leikhús heima, hafa frá hruni, verið full upp í rjáfur!

Hvað er framundan hjá þér Þorleifur? Ég er í Konstanz í suður Þýskalandi þar sem ég er yfirleikstjóri í Konstanzborgarleikhúsinu. Við vorum að frumsýna Mutter Courage und ihre Kinder eftir Brecht og næst á dagskrá er sjálfur Lér konungur. Svo eru mörg önnur verkefni, ég er bókaður í 2 ár. Meða annars er ég að fara að setja upp mína fyrstu óperu, Leðurblökuna eftir Strauss.

Hvað kemur til að þú ert kominn á þennan stað, að vera bókaður í 2 ár? Leikhússtjórar hafa bara komið, séð verkin mín og ráðið mig í vinnu. Come on, Þorleifur, þú kláraður skólann fyrir tveimur árum. Fyrir flesta tekur mun lengri tíma að koma sér á framfæri.

Er þetta heppni, örlög, hæfileikar, ertu sjálfur hissa á velgegni þinni? Ég er fullur af lotningu og gleði og ég lít svo á ég sé rétt að byrja, ég finn að ég vex með hverju verkefni. Auðvitað verður maður glaður þegar gengur vel, en ég hef líka prófað hitt, að ganga illa í því sem ég er að fást við , svo ég þekki þá tilfinningu. En ef til vill má rekja upphaf “velgengni” minnar til Teatertreffen í Berlín 2005 þar sem ég fékk tækifæri til að tjá mig. Ég hélt smá eldræðu yfir dómnefnd viðburðarins og hún vakti athygli. Ég var ennþá í skólanum á þessum tíma. Nokkrum árum síðar var leikhússtjórinn í St Gallen í Sviss að leita að leikstjóra til að setja upp Rómeo og Júliu, hafði séð sýningu Vesturports, varð hugsað til Íslands, mundi eftir ræðunni minni í Berlín og það fyndna er, samkvæmt sögu hans, datt útskriftarbæklingurinn frá skólanum mínum inn á borð til hans þennan sama dag. Það má því segja að þetta hafi í upphafi verið sambland af heppni, örlögum... og kannski einhverju fleiru! En ég var ráðinn,uppfærslan á Rómeó og Júlíu fékk frábæra dóma og mikla athygli og síðan hef ég verið mjög upptekinn.

úr uppfærslu Þorleifs Og þú treystir þér alveg í óperuleikstjórn? Ja, ég er að minnsta kosti búinn að skrifa undir samning! En grínlaust, ég geri mér fulla grein fyrir því að að það hafa margir aðrir miklu meira vit á óperum heldur en ég en óperustjórinn er að sækjast eftir “leikhúsleikstjóra” og réði mig. Það munu vinna með mér ýmsir sem hafa þekkingu á tónlistinni og þörfum óperuformsins. Það er líka eitt afar mikilvægt sem ég er búinn að læra, það er allt í lagi fyrir leikstjóra að segja: ÉG VEIT ÞAÐ EKKI!”

Fleiri fréttir