Skuggaleikhúsnámskeið

02. ágú 2014

La maschera bidimensionale

Dagana 23-24 ágúst nk. verður skuggaleikhússnámskeið haldið í Listaháskólanum á Sölvhólsgötu. Námskeiðið er haldið á vegum Leikhússins 10 fingur og UNIMA á Íslandi.

Námskeiðið leiðir Nicoletta Garioni frá ítalska leikhópnum Gioco Vita, en hann er heimsþekktur fyrir leiksýningar sínar og frumkvöðlastarf í skuggaleikhústækni.

Aðeins eru 15 pláss í boði og fer skráning fram hér islandunima@gmail.com

Nánari upplýsingar:

Dagsetningar:
Föstudagur 22. ágúst kl 16:00 - 20:00
Laugardagur 23. ágúst kl 10:00 - 18:00
Staðsetning: Listaháskólinn, Sölvhólsgötu 13
Verð: 15.000 kr. (aðeins 15 pláss í boði!)
Skráning: islandunima@gmail.com

NÁMSKEIÐSLÝSING:
Nicoletta mun leiða þátttakendur í ferðalag um nútíma skuggaleikhús þar sem unnið verður með ljós, tjöld og brúður úr smiðju Gioco Vita.

DAGUR 1:
Fyrri daginn verður saga skuggaleikhúss kynnt og sér í lagi sú umbylting sem listformið hefur orðið fyrir á síðustu 30 árum með tilkomu og þróun nýrra ljósgjafa og meðferðar á þeim, ólíkra tjalda, myndvarpa, mismunandi leikrýma og breyttra hugmynda um hvað skuggaleikhús er og getur verið.

DAGUR 2:
Seinni daginn mun hver og einn skapa sína eigin skuggabrúðu undir handleiðslu Nicolettu sem síðan verður unnið með og hinir óteljandi möguleikar ljóss og skugga sem tjáningarform rannsakaðir. Námskeiðið á erindi við leikara, dansara, ljósahönnuði, sviðslistafólk, kennara, leikmyndahönnuði, myndlistarfólk o.fl. (möguleiki er á niðurgreiðslu stéttarfélaga).

TEATRO GIOCO VITA
Teatro Gioco Vita var stofnað árið 1971 og hefur frá upphafi verið leiðandi afl í sjónrænu leikhúsi og er sérhæft á sviði skuggaleikhúss. Mikilvægur þáttur í starfi Gioco Vita hefur ætíð verið kennsla og námskeiðshöld og stuðla þau þannig að nýsköpun og áframhaldandi leit að nýjum tjáningarleiðum á sviði skuggaleikhúss.

NICOLETTA GARIONI

Nicoletta Garioni lauk myndlistarnámi og starfaði við listkennslu áður en hún hóf tveggja ára brúðuleikhúsnám á vegum Gioco Vita árið 1992. Í kjölfar þess hóf hún störf með hópnum sem leikmyndahönnuður og brúðuskapari og hefur síðan verið virkur meðlimur hópsins. Árið 1995 hóf hún einnig samstarf við Dockteatern Tittut í Stokkhólmi og hefur tekið þátt í sex uppfærslum með þeim. Nicoletta hefur haldið ótal námskeið á vegum Gioco Vita og kennt á margvíslegum vettvangi. Hún hefur reynslu af að kenna breiðum hópi fólks; leikurum, brúðuleikurum, hönnuðum, tæknimönnum, leikstjórum o.fl. 

Fleiri fréttir