Nýtt leikár hafið

09. sep 2013

kyndill Nýtt leikár er hafið í leikhúsum landsmanna og kennir ýmissa grasa í verkefnavali ársins og ber einna helst að merkja hve mörg ný íslensk verk verða á fjölunum þennan veturinn. Allt í allt verða frumsýnd 35* ný íslensk sviðs-, dans- og barnaverk á leikárinu, auk 10 nýrra íslenskra útvarpsverka. 9 sviðs- og dansverk voru frumsýnd á á LÓKAL-international Theatre Festival og Reykjavik Dance Festival í ágúst síðastliðnum.

Fimm ný barnaverk verða á fjölunum í vetur en það eru verkin Hættuför í Huliðsdal eftir Sölku Guðmundsdóttur frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 8. september, Aladdín eftir Bernd Ogrodnik sem frumsýnt verður við opnun Brúðuloftsins í Þjóðleikhúsinu þann 5. október nk., barnadansverkið Fetta Bretta eftir Tinnu Grétarsdóttur frumsýnt 9. nóvember í Þjóðleikhúsinu og Jólahátíð Skoppu og Skrítlu frumsýnt 16. nóvember í Borgarleikhúsinu og Hamlet Litli eftir Berg Þór Ingólfsson frumsýnt í Borgarleikhúsinu í apríl 2014, Fjöldi annarra barnaverka verða á fjölunum í vetur en þar má nefna Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur, Skrímslið litla systir mín (Barnasýning ársins 2012) eftir Helgu Arnalds og Charlotte Bøving, Litli Prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry sem og fleiri sýningar frá fyrri leikárum.

Af nýjum íslenskum sviðsverkum má einna helst nefna ný verk eftir; Guðberg Bergsson (Eiðurinn og eitthvað - GRAL), Lilju Sigurðardóttur (Stóru Börnin - LabLoki), Ragnar Bragason (Óskasteinar), Tyrfing Tyrfingsson (Bláskjár), Kristínu M. Baldursdóttur (Ferjan), Val Frey Einarsson (Dagbók Jazzsöngvara), Braga Ólafsson (Maður að mínu skapi), Mikael Torfason (Harmsaga), Auði Övu Ólafsdóttur (Svanir skilja ekki), Hrafnhildi Hagalín (Sek - L.A.) ofl. Einnig voru fjögur ný verk frumsýnd á LÓKAL - alþjóðlegu leiklistarhátíðinni sem fram fór dagana 28. ágúst til 1. september sl.

Fjöldi nýrra íslenskra dansverka voru frumsýnd á Reykjavik Dance Festival sem fram fór dagana 23. ágúst til 1. september sl. Upplýsingar um verkin má nálgast hér á vefsíðu okkar stage.is. Íslenski dansflokkurinn kemur til með að frumsýna amk. 3 ný dansverk á leikárinu auk þess að vera í samstarfi við Listahátíð 2014 um mögulega samvinnu að nýjum verkum.

Útvarpsleikhúsið mun frumflytja 10 ný íslensk útvarpsverk í vetur þar á meðal, Best í heimi í útvarpsleikgerð Maríu Reyndal eftir leikriti Hávars Sigurjónssonar, Árshátíð Vatnsveitunnar eftir Gunnar Gunnarsson, Hér eftir Kristínu Ómarsdóttur í útvarpsleikgerð og leikstjórn Bjarna Jónssonar, Páfuglar heimskautanna eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur og Gestabókin eftir Braga Ólafsson.

Nánari upplýsingar um sýningar má finna á heimasíðum leikhúsanna

Borgarleikhúsið http://www.borgarleikhus.is
Íslenski dansflokkurinn http://id.is
Leikfélag Akureyrar http://www.leikfelag.is
Tjarnarbíó http://tjarnarbio.is
Útvarpsleikhúsið á RÚV http://www.ruv.is/leikhus
Þjóðleikhúsið http://leikhusid.is

*Inn í þessari talningu eru ekki verk frá síðasta leikári né eldri íslensk verk sem sýnd verða í vetur.

Fleiri fréttir