Oddur Björnsson leikskáld - Kveðja frá Leiklistarsambandi Íslands

04. des 2011

Oddur Björnsson, leikskáld féll frá þann 22. nóvember s.l.  Leilistarsamband Íslands veitt honum heiðursverðlaun Grímunnar, íslensku sviðslistaverðlaunanna, sl sumar, fyrir ómetanlegt framlag í þágu íslenskrar leiklistar.

Oddur Björnsson leikskáld - Kveðja frá Leiklistarsambandi Íslands Kveðja frá Leiklistarsambandi Íslands við afhentingu heiðursverðlauna Grímunnar 16. júní 2011.

Til Odds Björnssonar, leikskálds

Ég vil fyrir hönd Leiklistarsambandsins og íslensks sviðslistafólks þakka þér Oddur stóru gjafirnar sem þú hefur fært okkur og áhorfendum með verkum þínum.

Hvort sem þú segir frá tvíburunum sem bíða fæðingar sinnar, Bakkusarhátíðinni með nöktum konum og skógarpúkum, eða dregur upp mynd af örmagna riddaranum sem ríður í öndverða átt, hefur þú sýnt okkur hvernig hlutskipti mannsins getur endurspeglast í frummyndum sakleysis, vakið okkur til umhugsunar um nöturlega misskiptingu auðs á jörðu, og brugðið upp hrjáðri heimsmynd sem líkt og Árni heitinn Ibsen sagði í grein um þrettándu krossferðina “hefur margvíslegar og óendanlegar víddir í tíma og rúmi.” 

Stundum, kannski oftast, hefur heimsmyndin þín, heimsmynd þeirra Seppa, Andrésar og Stefáns, verið okkur torskilin,   en þó,  í víddum hugans og hjartans, höfum við svo afar mörg fundið samhljóm – með lífi okkar, leit og krossferðum, samhljóm sem fær okkur í augnabliki leikhússins til að skilja “ hinn knýjandi sannleika”.

Fyrir það viljum við þakka af heilum hug.

Fleiri fréttir