Virði Grímunnar!

Erindi eftir Unni Ösp Stefánsdóttur

08. okt 2013

UnnurÖsp2

Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikkona, flutti neðangreint erindi á opnum umræðufundi um Grímuna, íslensku sviðslistaverðlaunin, mánudaginn 7. október sl. í Tjarnarbíói. Umræðufundurinn bar yfirskriftina Hvers virði er Gríman?. Auk Unnur voru þeir Jón Viðar Jónsson, leikhúsfræðingur og Andrés Jónsson, almennatengill, með innlegg á fundinum.

Það var fyrir rúmum áratug, um sama leyti og ég útskrifaðist úr Listaháskólanum, sem Grímuverðlaunin hófu göngu sína. Ég man að fyrst um sinn var töluverð ólga í fólki, menn tókust á um gildi þeirra og tilgang. Er hægt að keppa í listum? Er hægt að hafa marktæk verðlaun í greininni í jafn fámennu samfélagi og við búum í? Hvernig skal velja í nefndina til að forðast tengsl? O.s.frv. Eftir fyrstu skiptin sem blásið var svo til Grímuhátíðarinnar var mikil umræða innan leikhúsheimsins um aumingjahroll, tilgerð, vandræðaskap og hégómleika kvöldins. Með árunum er þó eins og Gríman hafi skipað sér sess í listasamfélaginu. Við erum búin að venjast forminu, hrollurinn á undanhaldi, hátíðin oftast hin glæsilegasta, eftirsóknavert fyrir listamenn að hljóta tilnefningu og umfram allt vekur hátíðin athygli samfélagsins á leikhúsheiminum. Auðvitað er stöðug gagnrýni í gangi og fólk með jafn ólíkar skoðanir á tilurð Grímunnar og við erum mörg. Og er það af hinu góða því það þarf að halda á lofti stöðugu eftirliti með ferli valnefndar og hátíðinni sjálfri svo við getum verið stolt af Grímunni og tilgangur hennar haldist skýr.

Gríman eru fyrstu verðlaunin í sviðslistum ef undanskilin eru gagnrýnenda verðlaunin Silfurlampinn og Menningarverðlaun DV. Reyndar var upphaf Grímunnar m.a. sprottið upp úr þörf fyrir að svara valdi gagnrýnenda. Mótvægi við umfjöllun þeirra um leiklist. Fram að því höfðu gagnrýnendur haft gríðarlega mikið um gang verka að segja. Einu verðlaunin sem veitt höfðu verið fram að Grímunni (tel ég þá hvorki með Skálholtssveininn né verðlaunastyrki eins og Stefaníustjakann) voru veitt af gagnrýnendum, fólkinu sem einnig fjallaði um leikhúsin opinberlega í fjölmiðlum. Það var því skýrt frá upphafi Grímunefndarstarfa að gagnrýnendur sætu ekki í valnefnd Grímunnnar. Þetta skildu vera fagverðlaun veitt af nefnd sem skipuð var af hópi fagfólks úr röðum leikara, dansara, leikstjóra, leikmyndahönnuða o.s.frv. Gríman yrði ný rödd inn í umræðuna um sviðslistir.

Ég var sem áður sagði nýútskrifaður leikari þegar byrjað var að tilnefna og verðlauna í leiklist. Sem leikari fannst mér strax eftirsóknarvert að setja markmiðið hátt og stefna að viðurkenningu frá Grímuvalnefndinni. Mér finnst mikilvægt að við listamenn fáum jákvæða hvatningu í starfi okkar og verðlaun og tilnefningar geta svo sannarlega haft áhrif á vegferð manns í listinni. Eitt finnst mér þó afar mikilvægt að nefna, þetta er ekki keppni okkar á milli. Þetta er leið til að velja athygli á því og skapa umræðu um það sem vel er gert í leikhúsinu og á því hvað stendur upp úr, ekki hvað er best! Það er aldrei hægt að taka lokavalinu bókstaflega því það er jú alltaf smekksatriði. Eins og það hljómar klisjulega þá er mesti heiðurinn raunverulega sá að fá tilnefningu. Ég held að fyrsta tilnefning listamanna til Grímunnar sé mikilvægust fyrir ferilinn. Ef ég tala út frá sjálfri mér, því það var þess vegna sem ég var fengin til að tjá mig um þessi mál, þá var það mun stærri persónulegur sigur að fá fyrstu tilnefninguna en að hljóta sjálf verðlaunin. Það er yfir höfuð varasamt að taka verðlaunum of alvarlega og láta sjórnast af því að fá klapp á bakið en hins vegar er heilbrigt og jákvætt að líta á verðlaun sem þessi sem almenna hvatningu til að gera alltaf sitt allra besta.

Við, í okkar litla samfélagi sem Ísland er, erum ekkert of góð til að taka þátt í að vekja athygli á vel gerðum faglegum hlutum, þetta er gert út um allan heim í listum; leiklist, tónlist, myndlist, bókmenntum og danslist. Verkfæri til að vekja athygli almennings á grein sem stendur sannarlega höllum fæti í árferði okkar Íslendinga í dag þegar það er raunveruleg umræða um að leggja niður listamannalaun og krafa úr vissum áttum um að velja á milli Þjóðleikhússins og Landspítalans. Eins og staðan er í dag er gert er ráð fyrir niðurskurði til lista sem nemur 346,6 milljónum króna á næsta ári frá fjárlögum 2013. Sjálfstæðu leikhúsin munu eiga sérstaklega erfitt uppdráttar ef af niðurskurðinum verður. Sem framleiðandi í sjálfstæða leikhúsgeiranum veit ég að það er gríðarlega mikilvægt að hljóta viðurkenningu Grímunefndarinnar á sýningum. Lítil sýning sem hafði ekki fjármagn til að auglýsa mikið stóð talsvert sterkar þegar 8 tilnefningar voru nefndar á auglýsingu og hafði það mikil áhrif á áframhaldandi gang sýningarinnar. Þetta er held ég höfuðtilgangurinn. Að fá fólk í leikhúsið.

Markaðsgildi verðlaunanna er afar mikilvægt og mér finnst það persónulega viss hræsni að tala um að það sé fáránlegt að sjónvarpa frá hátíðinni eða auglýsa tilnefningar þegar sýningar eru kynntar. Nú hætti ég mér á hálan ís því ég veit að um þetta eru afar skiptar skoðanir en eina Grímuhátíðin þar sem ég sat með aumingjahroll var hátíð þar sem engin sjónvarpsútsending var, allt afar afslappað og engin skemmtiatriði, bara við að verðlauna hvort annað og halda einhvers konar árshátið. Eins og það sé ekki nóg af leikhúspartýjum. Þá fyrst finnst mér þetta vera tilgangslaust, þá fyrst er þetta sjálfshátíð, hégómlegt og almennt vandræðalegt. Tökum fókusinn aðeins af okkur sjálfum og hvað okkur finnst um verðlaun í listum almennt, hvort við erum sammála hinum og þessum tilnefningum, skoðum málin í mun víðara samhengi og reynum að finna sameiginlegan tilgang þess að halda Grímuhátíðinni við.

Virði Grímunnar liggur í því að vekja athygli á því sem stendur upp úr gagnvart almenningi. Ekki hvort öðru. Vekja athylgi á sviðslistum í samfélagi sem virðist leggja minni og minni áherslu á mannlega þáttinn í lífi okkar, menninguna, heilbrigði og menntun og meiri áherslu á að rétta halla á ríkissjóði til að geta keypt sér meira dót og drasl. Þess vegna er Gríman mikils virði. Höldum andliti sviðslista og menningar almennt á lofti, setjum persónulegt mark hátt sem listamenn, þökkum fyrir klapp á bakið án þess að láta stjórnast af því og umfram allt reynum að fá sem flesta til að njóta leikhússins.

Höf. Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikkona.

Fleiri fréttir