Reykjavik Dance Festival og LÓKAL hefjast í dag, 27. ágúst!

27. ágú 2014

BlindSpottingMail

Reykjavik Dance Festival og LÓKAL- alþjóðleg leiklistarhátíð hefjast í dag, miðvikudaginn 27. ágúst. Fjöldinn allur af viðburðum er á dagskrá en á RDF verða frumsýnd 12 ný íslensk dansverk og á LÓKAL 5 ný íslensk sviðsverk. Að auki mun RDF í samstarfi við LÓKAL frumflytja, á íslandi, nýjasta verk Margrétar Söru Guðjónsdóttur, Blind Spotting.

Um RDF:

Nýtt fyrirkomulag mun vera á starfsemi Reykjavík Dance Festival frá og með 2014. Frá upphafi hefur RDF haldið eina danshátíð á ári, en með nýju fyrirkomulagi er ætlunin að halda alls fjórar minni hátíðir, sem fara fram í febrúar, júní, ágúst og nóvember ár hvert og því er sannkallað dansár framundan í borginni.

Markmið hátíðarinnar er að þenja mörk danslistarinnar, virkja íslenska áhorfendur, skapa hið óvænta og síðast en ekki síst - að koma fólki út á dansgólfið!

Fyrsta hátíðin fer fram dagana 27. - 30. ágúst, þar sem markmiðið er á að leggja ný drög að samtali um dans og kóreógrafíu á Íslandi, meðal áhorfenda og listamannanna. Hingað til þá hefur samtal um danslistina sjálfa því miður ekki farið hátt í samfélaginu, en með nýju fyrirkomulagi hátíðarinnar vonumst við til að breyta því. Á hátíðinni í ágúst verða alls tólf ný íslensk dansverk á dagskrá og því ljóst að samtalið verður fjölbreytt og áhugavert. En samtalið mun þó ekki einungis byggja á sjálfum sýningunum, heldur verður jafnframt boðið upp á útvarpspistla danshöfunda í samstarfi við RÚV, vinnustofur og málþing sem verða auglýst nánar síðar.

Nánari upplýsingar má finna á http://www.reykjavikdancefestival.is

Um LÓKAL:

Í þetta sinn einbeitir hátíðin sér að samskiptum innanbúðarmanna- og kvenna í íslensku samfélagi; afmörkuðum áhyggjum þeirra af ástinni, fjölskyldu, innilokunarkennd, túrisma og leigumarkaði. Sjónum okkar verður beint að því sem gengur á í okkar ástkæra, agnarsmáa ríki og reynt að draga upp lifandi mynd af þessu samfélagi sem við fáum framan í okkur á hverjum degi, eins og blauta tusku. Lókal leitast nú sem ávallt við að draga fram í dagsljósið nýja strauma og stefnur í íslenskum sviðslistum. LÓKAL alþjóðleg leiklistarhátíð er haldin með styrk frá Reykjavíkurborg og Menningar- og menntamálaráðuneytinu. Samstarfsaðilar: Íslandsstofa, Listaháskóli Íslands, Borgarleikhúsið, Tjarnarbíó, Síminn, Norræna húsið, Aalto Bistro og Bergsson mathús.

Nánari upplýsingar um LÓKAL má finna á http://www.lokal.is

LÓKAL og Reykjavík Dance Festival verða með sameiginlega miðasölu í Tjarnarbíói 25.-31. ágúst kl. 13:00-18:00. Fram að því er hægt að panta miða á netfanginu tickets@lokal.is eða <tickets@reykjavikdancefestival> og í síma 782 7242

Fleiri fréttir