SSG - Samtök Skapandi Greina

03. maí 2011

Samtök skapandi greina, SSG, voru stofnuð í dag, þriðjudaginn 3. maí 2011.

Að samtökunum standa allar kynningarmiðstöðvar lista og skapandi greina og félagasamtök í hverri grein.

SSG - Samtök Skapandi Greina Bakhjarlar kynningarmiðstöðva, eru regnhlífasamtök í hverri grein og hefur SGG því breiðustu fylkingu fagfólks í skapandi greinum í landinu að baki sér. SSG munu vinna að sameiginlegri stefnumótun greinanna, í samstarfi við opinbera aðila og íslenskt atvinnulíf. Samtökin taka við hlutverki Samráðsvettvangs skapandi greina sam átti frumkvæði að rannsókn um hagræn áhrif skapandi greina sem kynnt var 1. desember sl.  

Í dag, á stofndegi SGG, var skýrsla með ítarlegri upplýsingum úr rannsókninni, kynnt á málstofu í Háskóla Íslands. Skýrsluna má finna hér Samtök skapandi greina munu stuðla að áframhaldandi rannsóknum á greinunum, tryggja að þær njóti hagstæðra vaxtarskilyrða og að þau sóknarfæri sem liggja í skapandi greinum séu nýtt í þágu hagvaxtar og lífsgæða. Jafnframt munu samtökin beita sér fyrir fræðsluverkefnum og endurmenntun fagfólks greinanna.

Stofnfélagar Samtaka skapandi greina eru: Samtónn (ÚTÓN og Íslensk tónverkamiðstöð), Kvikmyndamiðstöð Íslands, Leiklistarsamband Íslands, KÍM (kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar), Bókmenntasjóður, Hönnunarmiðstöð Íslands og IGI – Icelandic Gaming Industry (Samtök tölvuleikjaframleiðenda). 

Fyrsti talsmaður Samtaka skapandi greina er Ása Richardsdóttir, forseti Leiklistarsambands Íslands, og veitir hún allar nánari upplýsingar í síma 664 0404 eða á netfangi asa@leikhopar.is

Fleiri fréttir