Íslenski Dansflokkurinn á Nordic Cool í Washington

Viðtal við Láru Stefánsdóttur stjórnanda Íslenska Dansflokksins

25. feb 2013

TIL

Íslenski Dansflokkurinn mun stíga á svið í Kennedy Center, Washington annað kvöld, þann 26. febrúar, með þrjú íslensk verk sem sýnd eru í tengslum við listahátíðina Nordic Cool 2013. Dansflokkurinn mun einnig halda Masterclass fyrir atvinnudansara á sömu hátíð.

Lára Stefánsdóttir, listrænn stjórnandi Íslenska Dansflokksins sat fyrir svörum Leiklistasambandsins á dögunum.

Hvernig kom þessi ferð til?

Í Kennedy Center er haldin listahátíð á ári hverju sem tengist vissum menningarsamfélögum, t.d. í fyrra var hátíðin tileinkuð Indlandi. Í ár kynnir Kennedy Center norræna menningu og kallast hátíðin Nordic Cool 2013. Eitt af markmiðum Nordic Cool 2013 er að reyna að svara því "hvað er norrænt" með því að taka mið af listum, menningu, fólki, landinu, og þeim gildum sem eru höfð í öndvegi í hverju landi fyrir sig. Hátíðin stendur frá 19. febrúar til 17. mars og eru um 750 þátttakendur eða listamenn í leiklist, dansi, tónlist og myndlist sem verða með allskonar sýningar. Þær öndvegiskonur, Gilda M. Almeida og Alicia Adams, hafa ferðast um öll Norðulöndin til að velja það sem þær vildu kynna á hátíðinni og hefur undibúningur þeirra og val tekið um 2 ár. Það má því með sanni segja að Íslensksa dansflokknum sé sýndur mikill heiður og traust með því að vera valinn á þessa hátíð.

Hvernig gengur undirbúningurinn?

Undirbúningur gengur mjög vel og er allt samkvæmt plani. Við sýnum þrjú verk sem voru valin af Gildu og Aliciu til sýningar í Kennedy Center og fara 9 dansarar í ferðina. Verkin sem voru valin af Gildu og Alicu til sýningar í Kennedy Center eru "Til" eftir Frank Fannar Pedersen", "Svanurinn" eftir Láru Stefánsdóttur, og Grossstadt Safari eftir Jo Strömgren. Til er nýjasta verkið en það var sýnt á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu í nóvember 2012.

Hin verkin voru frumsýnd fyrir nokkrum árum á Íslandi en hafa verið sýnd víða erlendis á ólíkum hátíðum. Má nefna að Katrín Ingvadóttir er nú æfingastjóri ÍD og þekkir Grossstadt Safari út og inn þar sem hún dansaði sjálf í verkinu. Hún heldur vel utan um það og prógrammið allt. Þá hefur nýr kvendansari , Ellen Margrét Bæhrenz, verið að æfa annað hlutverkið í Svaninum og mun hún frumsýna verkið í Washington. Hún nýtur góðs stuðnings mótleikara síns sem hefur dansað í verkinu síðan 2008 á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Hvaða væntingar hefuru til þessa verkefnis og hvað sérðu fyrir þér koma út úr þessari ferð?

Væntingar okkar allra í ÍD er að skila góðri sýningu og heilla áhorfendur upp úr skónum, með það í huga að fá þá aftur á sýningu flokksins næst þegar hann leggur land undir fót í Bandaríkjunum. ÍD hefur verið að mynda mikið af tengiliðum og samböndum á ferðalögum sínum og má búast við því að slíkt hið sama gerist nú í þessarri ferð. Flokkurinn er ekki að sýna á fleiri stöðum í US í þetta skiptið en stefnan er að fara í lengra sýningarferðalag um Norður-Ameríku árið 2014. Þetta er spennadi óvissuferð að vissu leyti og við förum með opinn huga yfir Atlantshafið.

Til að fá nánari upplýsingar um verkin þá er um að gera að heimsækja heimasíðu Íslenska dansflokksins http://www.id.is

Fleiri fréttir