Samfélagsleg áhrif birtingarmynda í listum
Málþing um samfélagsleg áhrif birtingarmynda í listum
Þjóðleikhúsið, í samstarfi við ÖBÍ réttindasamtök, Landssamtökin Þroskahjálp, Bandalag íslenskra listamanna, Sviðslistasamband Íslands og Listaháskóla Íslands, býður til opins málþings þriðjudaginn 11. október kl. 17. Málþingið hefur yfirskriftina Samfélagsleg áhrif birtingarmynda í listum – samtal um hlutverk lista og inngildingu jaðarhópa.
Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað um leikhúsið og sviðsetningu raunveruleikans í listum. Kastljósinu hefur sérstaklega verið beint að inngildingu og sýnileika fatlaðs fólks og annarra minnihlutahópa í listum. Umræðan er sprottin af skoðanaskiptum um framsetningu á leikpersónu, sem er ungur fatlaður maður, í sýningunni Sem á himni.
Þjóðleikhúsið, í samstarfi við ÖBÍ réttindasamtök, Landssamtökin Þroskahjálp, Bandalag íslenskra listamanna, Sviðslistasamband Íslands og Listaháskóla Íslands, efnir til málþings um samfélagslegt hlutverk lista, þar sem velt verður upp spurningum um sögurnar sem sagðar eru, um framsetningu þeirra og það hvernig ólíkum hópum er gert kleift að njóta lista og taka þátt í sköpun listaverka.
Listafólk vill leggja við hlustir og eiga samtal við sem flesta í samfélaginu með það að markmiði að auka skilning, víkka sjóndeildarhringinn og brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða. Því vonast skipuleggjendur eftir þátttöku allra sem áhuga hafa á uppbyggilegu samtali um þetta brennandi málefni.
Leikhúsið er listform sem speglar hinn persónulega og samfélagslega veruleika með margvíslegum hætti, og segir fjölbreyttar sögur. Með störfum sínum kappkostar listafólk að vekja til umhugsunar, hreyfa við fólki og efna til umræðu um ólíkar hliðar mannlegrar tilveru, og þannig getur listin orðið hreyfiafl til góðra verka, unnið gegn aðgreiningu og verið sameinandi afl í sundruðum heimi.
Málþingið verður haldið þriðjudaginn 11. október á Stóra sviði Þjóðleikhússins kl. 17. Aðgangur er ókeypis. Aukið rými fyrir hjólastóla verður útbúið fyrir umræðurnar. Nánari dagskrá verður auglýst síðar.
Skráning fer fram á vef Þjóðleikhússins.