International Theatre Institute ITI
World Organization for the Performing Arts
Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2023
Samiha AYOUB, leikkona, Egyptalandi.
Til félaga minna í leiklistinni um allan heim.
Ég finn fyrir mikilli hamingju að ávarpa ykkur á Alþjóðlega leiklistardeginum og senda ykkur þessi skilaboð, en jafnframt skelfur hver fruma líkama míns af álaginu sem við erum öll að sligast undan – leikhúsfólk sem aðrir – undan yfirþyrmandi myljandi fargi og sorg sem ástand heimsins vekur. Bein afleiðing þess sem heimurinn okkar gengur nú í gegnum er óstöðugleiki – ósætti, stríð og náttúruhamfarir sem hafa haft hrikaleg áhrif ekki aðeins á efnisheiminn, heldur einnig á andlega tilveru okkar og sálarfrið.
Í dag ávarpa ég ykkur vegna þess að ég skynja að heimurinn er eins og mörg einangruð eylönd, eða eins og flóttaskip sem hverfa fullum seglum inn í þokubakkann við sjóndeildarhringinn, án leiðsagnar, án þess að sjá nokkur kennileiti til að taka mið af. Þrátt fyrir það halda þau siglingunni ótrauð áfram í von um að ná heil í örugga höfn sem mun umfaðma þau eftir langa siglingu í ólgandi sjó.
Við höfum aldrei áður verið eins nátengd og nú á tímum, en jafnframt höfum við, íbúar jarðarinnar, aldrei verið jafn ósamstíga, tvístruð og fjarlæg hvert öðru. Þetta er hin dramatíska þversögn sem samtíminn hefur skapað okkur. Þrátt fyrir gegndarlaust upplýsingaflæði, þar sem nútímasamskipti splundra öllum landfræðilegum mörkum, hafa átökin og spennan sem við höfum orðið vitni að um allan heim farið yfir mörk rökréttrar skynjunar, og afvegaleitt okkur, mitt í þessari augljósu nánd, frá sönnum kjarna mennskunnar í sinni einföldustu og tærustu mynd.
Innsta eðli leiklistarinnar er rannsókn á mannlegri hegðun sem byggir á lífi mannkyns. Með orðum hins mikla leiklistarbrautryðjanda Konstantíns Stanislavskís: „Komdu aldrei inn í leikhúsið á skítugum skónum. Skildu rykið og óhreinindin eftir fyrir utan. Leggðu frá þér áhyggjur, ósætti og erfiðleika við innganginn ásamt yfirhöfn þinni og sömuleiðis allt það sem spillir lífi þínu og dregur athyglina frá listinni”. Þegar við förum upp á leiksviðið er aðeins eitt líf innra með okkur, líf einnar manneskju, en þetta líf hefur óslökkvandi hæfileika til að fjölfaldast, til að breytast í mörg líf sem við sendum út í heiminn þannig að þau lifa áfram, blómstra og dreifa ilmi sínum til annarra.
Það sem við, leikskáld, leikstjórar, leikarar, leikmyndahöfundar, tónlistarmenn, danshöfundar og tæknifólk vinnum að í leikhúsinu, án undantekninga í sameiningu, er einstakt sköpunarverk – líf sem fæðist á leiksviðinu. Þetta líf á skilið verndandi hönd, ástríkt hjarta sem umvefur það, og hefur samúð með því – og hreinan huga sem gefur því tilgang til að komast af og lifa áfram.
Ég er ekki að ýkja með því að segja að það sem við gerum á leiksviðinu sé til marks um líf sem framkallað er úr engu, eins og brennandi glóð sem flöktir í myrkrinu og lýsir upp niðdimma nóttina og yljar. Það erum við sem veitum lífinu dýrðarljóma. Það erum við sem sýnum það. Það erum við sem gefum því kraft og merkingu. Og það erum við sem undirstrikum forsendurnar fyrir því að skilja það. Það erum við sem beitum ljósi listarinnar til að horfast í augu við svartnætti fáfræði og öfga. Það erum við sem tileinkum okkur kenninguna um lífið, svo að líf megi flæða um þennan heim. Til þess beitum við kröftum okkar, tíma okkar, svita og tárum, blóði okkar og tilfinningum, öllu sem nauðsynlegt er til að flytja þennan göfuga boðskap, verja gildi sannleikans, gildi góðmennsku og fegurðar og trúa því í einlægni að lífið er þess virði að lifa.
Ég ávarpa ykkur í dag, ekki bara til að tala til ykkar, eða til að fagna „leikhúsinu“, í tilefni af alþjóðlegum degi þess. Heldur býð ég ykkur öllum að standa saman, hönd í hönd og hlið við hlið, og hrópa af æðruleysi, eins og við erum vön á leiksviðum leikhúsanna okkar, til að vekja samvisku alls heimsins, til að leita innra með okkur að týndum kjarna mennskunnar: Frjáls, umburðarlynd, kærleiksrík, samúðarfull, mild og hugdjörf manneskja hafnar svívirðilegri birtingarmynd grimmdar, kynþáttafordóma, blóðugra átaka, þröngsýni og öfga. Fólk hefur gengið á þessari jörð og undir þessum himni í þúsundir ára og mun halda því áfram. Stígið upp úr foraði stríðs og blóðugra átaka og skiljið leðjuna eftir við innganginn að leiksviðinu.
Kannski mun mannkynið, sem hefur verið fálmandi í þoku efasemda, aftur verða staðfast í fullvissu sem mun sannarlega gera okkur öll stolt af því að vera menn og að vera öll bræður og systur.
Það er hlutverk okkar, sem leikskálda, kyndilbera ljóssins allt frá fyrstu framkomu fyrsta leikarans á fyrsta leiksviðinu, að standa í fararbroddi og takast á við illsku, blóðbað og ómennsku. Að horfast í augu við fegurð, hreinleika og mennsku. Það er undir okkur komið og engum öðrum að breiða út lífið. Boðum það saman í nafni jarðarinnar og mannkyns.
Samiha Ayoub
Íslensk þýðing: Hafliði Arngrímsson
Samiha Ayoub er leikkona, fædd árið 1932 í Shubra-hverfinu í Kaíró, Egyptalandi. Hún útskrifaðist frá Leiklistarháskólanum í Kaító árið 1953, þar sem leikskáldið Zaki Tulaimat kenndi henni. Hún var leikhússtjóri Nútímaleikhússins í Kairó frá 1972 til 1975 þegar hún tók við Þjóðleikhúsi Egyptalands (Al-Qawmy) sem hún stjórnaði næstu tíu ár. Þótt leikhúsið hafi verið hennar helsti starfsvettvangur hefur hún leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsmynda. Hún er þekkt fyrir leik sinn í kvikmyndunum The Land of Hypocrisy, The Dawn of Islam, With Happiness, Among the Ruins. Hún hlaut margs konar heiðursviðurkenningar frá ýmsum þjóðhöfðingjum, þar á meðal Gamal Abdel Nasser og Anwar Sadat, auk Hafez al-Assad Sýrlandsforseta og franska Giscard d’Estaing. Árið 2015 hlaut hún Nílar-verðlaunin í listum, sem eru æðstu heiðursverðlaun Egyptalands og jafnframt var aðalsalur Þjóðleikhússins í Kaíró nefndur eftir henni.
[Link to Samiha Ayoub’s message in English and other languages]