1. grein
Nafn, heimili og varnarþing
Sambandið heitir Sviðslistasamband Íslands, skammstafað SSÍ. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Hlutverk og starfsemi
Hlutverk SSÍ er að vera sameiginlegur vettvangur þeirra sem starfa innan sviðslista á Íslandi. Hlutverk sitt rækir SSÍ með því að örva samstarf og samhug milli allra greina sviðslista, standa vörð um hagsmuni aðildarfélaganna á breiðum grundvelli og styðja almennt við þróun, vöxt og viðgang sviðslista á Íslandi.
SSÍ mótar stefnu í sameiginlegum málum og fylgir henni eftir gagnvart stjórnvöldum og almenningi með upplýsingamiðlun.
SSÍ tilnefnir fulltrúa í opinber ráð og nefndir í samræmi við lög og reglugerðir og er stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni sviðslista eftir því sem tilefni er til, eða óskað er eftir.
3. grein
Aðild
Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sviðslista eiga aðild að SSÍ í gegnum eftirfarandi fagfélög og samtök í sviðslistum:
- Samtök atvinnuveitenda í sviðslist og tónlist (SAVÍST)
- Sjálfstæðu leikhúsin (SL)
- Félag íslenskra leikara (FÍL)
- Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ)
- Félag leikskálda og handritshöfunda(FLH)
- Félag íslenskra listdansara (FÍLD)
- Félag tæknifólks í rafiðnaði (FTR)
- Félag leikmynda- og búningahöfunda (FLB)
- Danshöfundafélag Íslands (DFÍ)
- Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi (KlassÍs)
Aðild er bundin því að félag teljist virkt þ.e. hafi ekki færri en 10 félagsmenn, stjórn sem starfar í umboði aðalfundar og að aðalfundur hafi verið haldinn innan 12 mánaða frá dagsetningu aðalfundar SSÍ.
Aðalfundur SSÍ tekur ákvarðanir um aðild, en umsóknir um aðild þurfa að hafa borist stjórn sambandsins eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund.
4. grein
Fulltrúaráð
Fulltrúaráð fer með umboð aðildarfélaga á aðalfundi SSÍ. Fulltrúaráð kemur saman til þess að ræða málefni er varða heildarhagsmuni aðildarfélaganna, eftir því sem tilefni er til og getur jafnframt staðið fyrir opnum fundum um málefni sviðslista.
Aðildarfélög tilnefna fulltrúa í fulltrúaráð til eins árs í senn. Fjöldi fulltrúa er sem hér segir:
- Samtök atvinnuveitenda í sviðslist og tónlist (SAVÍST) 4 fulltrúar
- Sjálfstæðu leikhúsin (SL) 2 fulltrúar
- Félag íslenskra leikara (FÍL) 1 fulltrúi
- Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ) 1 fulltrúi
- Félag leikskálda og handritshöfuna (FLH) 1 fulltrúi
- Félag íslenskra listdansara (FÍLD) 1 fulltrúi
- Félag tæknifólks í rafiðnaði (FTR) 1 fulltrúi
- Félag leikmynda- og búningahöfunda (FLB) 1 fulltrúi
- Danshöfundafélag Íslands (DFÍ) 1 fulltrúi
- Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi (KlassÍs) 1 fulltrúi
Aðildarfélög skulu senda stjórn SSÍ tilefningar um fulltrúa samkvæmt þessari grein, eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund.
5. grein
Stjórn
Stjórn SSÍ er skipuð fimm einstaklingum. Fulltrúaráð kýs forseta sambandsins leynilegri kosningu á aðalfundi til tveggja ára í senn, en aðrir stjórnarmenn eru valdir til eins árs í senn svo sem hér segir:
1. Samtök atvinnuveitenda í sviðslist og tónlist velja tvo stjórnarmenn og tvo til vara
2. Sjálfstæðu leikhúsin velja einn stjórnarmann og einn til vara
3. Fag- og stéttarfélög velja einn stjórnarmann og einn til vara
Skipan stjórnar SSÍ er staðfest á aðalfundi og fer hún með öll málefni SSÍ með heildarhagsmuni sviðslista að leiðarljósi og í samræmi við lög þessi. Forfallist aðalmaður boðar hann varamann til stjórnarfunda í sinn stað.
Á fyrsta fundi eftir aðalfund kýs stjórn úr sínum röðum varaforseta, ritara og gjaldkera. Stjórnarfundur er ályktunarbær ef forseti og 2 stjórnarmenn eru viðstaddir fundinn að lágmarki. Forseti stýrir fundum stjórnar og kemur fram fyrir hönd SSÍ.
Stjórn tilnefnir fulltrúa í ráð og nefndir í samræmi við verklagsreglur sem fengið hafa staðfestingu aðalfundar. Við tilnefningu fulltrúa skal leitast við að gæta jafnræðis milli aðildarfélaga.
Stjórn SSÍ er jafnframt stjórn Grímunnar – Íslensku sviðslistaverðlaunanna en um þau gilda starfsreglur sem staðfestar eru á aðalfundi SSÍ eða löglega boðuðum fulltrúaráðsfundi.
6. grein
Aðalfundur
Aðalfund SSÍ skal halda einu sinni á ári, eigi síðar en fyrir lok nóvember og er hann opinn öllum félögum aðildafélaga SSÍ. Hvert aðildafélag hefur atkvæðafjölda í samræmi við fjölda fulltrúa í fulltrúaráði. Aðalfund skal boða með tölvupósti til stjórnar og fulltrúaráðs með minnst fjögurra vikna fyrirvara og tilkynna á heimasíðu SSÍ. Dagskrá og lagabreytingatillögur skulu sendar út eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund.
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Aðalfundur er æðsta ákvörðunarvald í málefnum SSÍ. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður niðurstöðu mála, en falli atkvæði jöfn ræður atkvæði forseta úrslitum.
Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:
1. Lögmæti fundarins kannað, hverjir hafi aðild og atkvæðisrétt
2. Fundargerð síðasta aðalfundar
3. Greinargerð stjórnar vegna liðins starfsárs
4. Reikningar liðins starfsárs
5. Kjör forseta sambandsins
6. Staðfesting löglega tilnefndrar stjórnar sambandsins fyrir komandi starfsár
7. Val tveggja skoðunarmanna reikninga
8. Ákvörðun félagsgjalds
9. Lagabreytingar
10. Gríman – Íslensku sviðslistaverðlaunin
11. Önnur mál
Jafnframt skal tekið fyrir á aðalfundi eftir því sem tilefni eru til:
1. Umsóknir um aðild að sambandinu
2. Framtíðarsýn og stefnumótun
7. grein
Fulltrúaráðsfundir
Forseti boðar til fulltrúaráðsfunda milli aðalfunda skv. ákvörðun stjórnar eða ef minnst fjórir fulltrúar óska þess. Boða skal til fundarins innan tveggja vikna frá því slík ósk kemur fram
8. grein
Upplýsingar
Fundargerðir fulltrúaráðs og stjórnar skulu sendar fulltrúum jafnóðum svo og önnur gögn og upplýsingar er varða starfsemi SSÍ. Ársskýrslur og fundargerðir aðalfundar skulu ávallt birtar á vef SSÍ.
9. grein
Reikningsár og félagsgjald
Reikningsár SSÍ er almanaksárið. Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi og gildir fyrir yfirstandandi reikningsár. Aðildarfélög SSÍ greiða eitt félagsgjald fyrir hvern fulltrúa. Félagsgjald skal greiða árlega, í síðasta lagi 3 vikum fyrir boðaðan aðalfund. Aðildafélag sem ekki greiðir félagsgjald fyrir aðalfund missir atkvæðisrétt á aðalfundi.
10. grein
Ákvörðun um að leggja SSÍ niður er ekki hægt að taka nema að minnsta kosti ¾ fulltrúa séu á löglega boðuðum fundi og að a.m.k. ¾ fundarmanna greiði tillögu þess efnis atkvæði. Mennta- og Menningarmálaráðherra skal taka ákvörðun um ráðstöfun eigna SSÍ verði sambandið lagt niður.
11. grein
Lagabreytingar
Tillögur til breytinga á lögum þessum skal senda stjórn SSÍ skriflega eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Tillögur um lagabreytingar skulu fylgja boðaðri dagskrá aðalfundar. Lagabreytingar öðlast samþykki með amk 2/3 hluta atkvæða.
12. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt á aðalfundi SSÍ þann 30. nóvember 2021