Jon Fosse
Jon Fosse

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2024 eftir Jon Fosse, leikskáld, Noregi.

International Theatre Institute ITI
World Organization for the Performing Arts

Sérhver manneskja er einstök og samt eins og hver önnur manneskja. Ásýnd okkar, – ytra útlit er ólíkt öllum öðrum, auðvitað, og það er allt gott og blessað. En það er líka eitthvað innra með hverju og einu okkar sem tilheyrir eingöngu þessari einu ákveðnu manneskju. Við gætum kallað þetta sál, eða anda, – eða við þurfum ekki nauðsynlega að gefa því nafn, bara leyfa því að vera sem það er.

En þó að við séum öll ólík, þá erum við líka eins. Fólk frá öllum heimshornum er í grundvallaratriðum alveg eins, sama hvaða tungumál það talar, hvaða húðlit það hefur, hvaða hárlit það hefur.

Þetta kann að vera þversögn, að við séum öll eins en samt frábrugðin hvert öðru. Og kannski er manneskjan í eðli sínu þversagnakennd, í togstreitu líkama og sálar – milli þess sem er rækilega bundið hinu efnislega og þess sem er handan efnislegra tengsla og takmarkana.

En listin, góð list, tekst á sinn undursamlega hátt að sameina hið sértæka og hið algilda. Hún gerir okkur kleift að skilja það sem er öðruvísi – maður gæti líka sagt framandi – sem væri það almennt. Þannig ryður listin úr vegi öllum mörkum tungumála, landa og heimshluta. Hún sameinar ekki bara einstæða eiginleika hvers og eins, heldur einnig,- í öðrum skilningi, það sem mótar og skilgreinir hópa fólks, til dæmis þjóðir.

Listin gerir þetta ekki með því að fletja út fjölbreytileikann og gera allt eins, heldur þvert á móti með því að sýna okkur hvað er ólíkt, hvað er frábrugðið eða framandi. Öll góð list inniheldur einmitt það: Það sem er frábrugðið, eitthvað sem við getum ekki fyllilega skilið en skiljum samt á vissan hátt. Hún felur í sér töfrandi leyndardóm, ef svo má að orði komast. Eitthvað sem heillar okkur og ýtir okkur þannig út fyrir takmörk okkar og skapar með því eitthvað óviðjafnanlegt og stórfenglegt sem hlýtur að vera innsti eðliskjarni allra lista og markmið.

Ég get ekki ímyndað mér betri leið til að sameina andstæður. Listin er einmitt andstæðan við ofbeldisfull átök í heiminum sem við sjáum allt of oft þróast í þá eyðileggjandi freistingu að tortíma öllu framandi, öllu einstöku og öðruvísi, oft með því að beita mannfjandsamlegustu tækniuppfinningum sem við höfum umráð yfir. Það eru hryðjuverk. Það eru stríð. Vegna þess að fólk hefur einnig sínar dýrslegu hliðar knúnar af eðlishvötinni að líta á hið ókunna og framandi sem ógn við eigin tilvist en ekki heillandi ráðgátu. Og þannig hverfur allt sérstakt, vegna þess að við lítum á það sem ógn sem þarf að uppræta.  Það sem utan frá séð virðist frábrugðið og framandi, til dæmis hvað varðar ólík trúarbrögð eða pólitíska hugmyndafræði það verður að yfirbuga og eyða.

Stríð er bardagi við það sem býr djúpt innra með okkur öllum, hið einstaka. Og það er einnig bardagi gegn listinni, gegn innsta kjarna hennar.

Ég hef kosið að tala hér um list almennt, ekki um leiklist sérstaklega, en það er vegna þess, eins og ég hef sagt, að öll góð list, innst inni, snýst um það sama: Að taka hið einstaka, hið algerlega sértæka, og gera það altækt eða almennt. Listin sameinar hið sértæka hinu algilda með listrænni tjáningu. Hún útrýmir ekki sérstöðunni heldur leggur áherslu á hana, lætur það sem er frábrugðið og framandi skína skýrt í gegn.

Stríð og list eru andstæður, rétt eins og stríð og friður eru andstæður, – svo einfalt er það. List er friður.

*

Um Jon Fosse

Jon Fosse, fæddur árið 1959, er  þekktasta núlifandi leikskáld Noregs. Hann er ekki einungis þekktur fyrir leikrit sín heldur einnig skáldsögur ljóð, ritgerðir, barnabækur og þýðingar. Árið 2023 hlaut hann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir nýstárleg leikrit og skáldsögur.

Verk Fosse hafa verið þýdd á yfir fimmtíu tungumál, einkum leikritin sem hafa verið sýnd á þúsundum leiksviða um heim allan.

Fyrirmyndir hans í leikritun segir hann vera þá Samuel Beckett og Thomas Bernhard. Knappur stíll og sterk tjáning mannlegra tilfinninga.

 Verk Jons Fosse eru könnun á kjarna mannlegs ástands ef svo má að orði komast. Hann fjallar um óvissu, kvíða, ást og missi. Með einstökum ritstíl og nákvæmri könnun á hverstagslegum aðstæðum hefur hann fest sig í sessi sem eitt helsta leikskáld samtímans.

Hér á landi hafa nokkur leikrita hans verið flutt. Meðal annarra Nafnið og Nóttin syngur söngva sína sem voru flutt í Útvarpsleikhúsinu. Sumardagur var sviðsett í Þjóðleikhúsinu og leikflokkurinn Sómi þjóðar sviðsetti leikritið Ég er vindurinn.

Hafliði Arngrímsson íslenskaði ávarpið og tók saman ágrip um Jon Fosse.