Síðastliðna Menningarnótt færði Logi Einarsson menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra þjóðleikhússtjóra Magnúsi Geiri Þórðarsyni viljayfirlýsingu varðandi stækkun Þjóðleikhússins. Nokkuð sem ber að fagna, enda löngu tímabær fjárfesting í leikhúsi allra landsmanna. 

Þjóðleikhúsið fagnar 75 árum í ár og hefur það opnað dyrnar fyrir landsmönnum að einstökum sviðslistaupplifunum allt frá árinu 1950. Það er augljóst hverjum þeim sem sótt hefur sýningar í leikhúsinu að umbóta er þörf enda er sjálft húsið hannað fyrir meira en 100 árum síðan og margt breyst í okkar samfélagi á þeim tíma, en fólksfjöldi hefur til að mynda þrefaldast frá opnun þess. Það kemur því ekki á óvart að húsið kalli á viðbyggingu og aukið rými en það hefur í raun frá opnun sinni búið við skort á rýmum. 

Ýmsar útfærslur hafa verið gerðar til þess að auka sviðsrými í Þjóðleikhúsinu í gegnum árin en ekki hefur verið farið í það að bæta við sviðsrými frá grunni eins og nú stendur til að gera. Það að bætt verði við húsnæði sem mun rýma  “svartan kassa”, þ.e sveigjanlegt sviðsrými með góðu aðgengi og plássi fyrir allt að 300 manns ásamt æfingarrými og viðunandi geymslu fyrir leikmyndir og búninga er gríðarlega mikilvægt og markar tímamót í sögu leikhússins.
Ég tel að þessi viðbót muni skila sér margfalt tilbaka til bæði sviðslistageirans og samfélagsins, þar sem ný viðbygging við Þjóðleikhúsið mun m.a bjóða upp á aukið aðgengi fyrir bæði áhorfendur og flytjendur nokkuð sem lengi hefur verið kallað eftir, fjölbreytileiki sýninga mun einnig aukast þar sem hægt verður að koma til móts við sístækkandi sviðslistavettvang og bjóða upp á nýjungar og frumsköpun sem ekki hefur verið rými fyrir áður, sérstaklega í ljósi þess að sviðslistarýmum á höfuðborgarsvæðinu hefur hægt og bítandi farið fækkandi síðasta áratuginn.
Auðséð er að ný Þjóðarópera mun eiga sinn stað en óskandi er að dansinn verði þar ekki skilinn eftir enda hefur danslistafólk lengi kallað eftir bættri aðstöðu fyrir danslistirnar hér á landi. 

Það er stórt skref fyrir sviðslistir í landinu og fagnaðarefni að loks fá velvilja frá ráðuneyti til þess að stækka við Þjóðleikhúsið eftir áratuga langa baráttu. Ég tel að nú sé tími til þess að standa saman og vinna að því að þessi áform raungerist, rétt eins og það voru stórhuga einstaklingar sem með hugsjón og drifkrafti réðust í það mikla verk að reist yrði Þjóðleikhús í litlu samfélagi fyrir meira en 75 árum síðan.