Mynd Jorri
Sviðslistasamband Íslands SSÍ
Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2023
Ólafur Egill Egilsson, leikari og leikstjóri, Íslandi
Leikhúsið er húsið okkar allra, barnanna, foreldranna, forfeðranna og þeirra ókomnu. Það er hús draumanna, hús andanna, hús líkamanna, hús mennskunnar, það er hús inní húsi, það er ekki hús, það er allt sem var er og verður.
Leikhúsið er bæði gamalt og nýtt. Það byggir á hefðum, gamalli arfleifð sem hefur þróast frá því að við sátum fyrst við eldinn og fórum að segja hvort öðru sögur.
En leikhúsið er líka nýtt. Alltaf. Ekkert leikverk hefur verið leikið tvisvar eins, aldrei, hver uppsetning er ný, hver sýning er ný.
Þannig endurspeglar leikhús alltaf samtíma sinn, í rauninni líka þegar það gerir það ekki, ef við lítum í spegil og sjáum að það vantar allt nema nefið, þá myndi athygli okkar ekki beinast að nefinu, heldur að því sem vantar, og við myndum vilja ræða það.
Þessvegna verða allar leiksýningar, allar spegilmyndirnar sem brugðið er upp, hversu ófullkomnar sem þær eru, hluti af samtali okkar, mannskepnunnar, við okkur sjálf.
Samtali þar sem spurt er: Hvernig birtumst við, hver birtist, hvernig, hvað sést, hvað sést ekki… Hver erum við?
Og þetta samtal á sér stað milli salar og sviðs, sviðs og samfélags, samfélags og einstaklinganna, einstaklinganna og leikhússins.
En það skrýtna í þessu samtali er að engu er hægt að slá föstu, allt er á hreyfingu, ekkert er algilt. Ef ég segi leikhús á að vera pólitískt, þá kemur einhver annar og segir, nei einmitt ekki, ef ég segi leikhús á að vera fyrirmynd, sýna allan fjölbreytileika mannskepnunnar og fegurð hennar þá kemur einhver annar og segir, nei það á að sýna heiminn eins og hann er, ljótan og grimman, o.sv.fr.
Og það skiptir engu máli hver segir hvað, enginn hefur rétt fyrir sér og allir hafa rétt fyrir sér. En. Enginn getur í rauninni sagt, svona á leikhúsið að vera og ekki öðruvísi.
Ekki góða fólkið, ekki vonda fólkið, hvort sem er til hægri eða vinstri, ekki einu sinni fatlaðir eða samkynhneigðir eða forréttiindablindir eða menningarvitar eða leikhúsfræðingar eða forsetinn. Enginn.
Listin, og leikhúsið, er eins og kötturinn í kassa heimspekingsins, sem er bæði dauður og lifandi, kvarkarnir í atóminu sem eru einhversstaðar og allstaðar. Klósett er ekki listaverk, öskur er ekki tónlist, bull er ekki leikrit, þetta er satt og ekki satt.
En.
Þó það verði aldrei nein niðurstaða og ekkert sé rétt og ekkert sé rangt þá skiptir samtalið samt máli.
Það skiptir öllu máli.
Það er partur af spegluninni, eða ekki spegluninni, og því ber að fagna, og það ber að virða, ef einhver segir svona á ekki að gera í leikhúsi, þá er ekki hægt að svara, „jú víst”, eða „við vorum ekki að gera það”, eða „má nú ekkert?” Það á miklu frekar að svara „hversvegna, hversvegna ekki, hvernig, hvernig ekki, afhverju, afhverju ekki, segðu mér, er það, nú já, þú meinar, ég skil…” o.sv.fr.
Það er samtal.
Og það verður að eiga sér stað í heiðarleika, kærleika og auðmýkt á alla bóga og gagnvart öllum sjónarmiðum, gagnvart öllu og öllum.
Af því að, ef það er hægt að tala um tilgang með þessu öllu, leikhúsinu – og lífinu eiginlega.
Þá hlýtur það að vera:
Að sýna og sjá.
Að segja og heyra.
Að tala saman.
Að tala í alvöru saman.
Og skilja.
Það er mennskan.
Það er leikhús.
Ólafur Egill Egilsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið 2002. Hann hefur starfað sem leikari, handritshöfundur og leikstjóri í leikhúsi og kvikmyndum. Hann leikstýrði m.a. Grímuverðlaunasýningunni Níu lífum, fékk Grímuna fyrir leik í Sjálfstæðu fólki, Óliver og Svartri mjólk og sem leikskáld ársins fyrir Fólkið í kjallaranum. Þá hlaut hannEdduverðlaunin sem meðhöfundur kvikmyndarinnar Kona fer í stríð.