Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2025 eftir Birni Jón Sigurðsson, sviðshöfund, Íslandi.

 

Ekkert er jafn vont og lélegt leikhús. Ekkert er jafn yfirgengilega ömurlegt og slæmt sviðsverk. Að sitja í sal og horfa á líkama sprikla og segja eitthvað sem þú tengir ekki við, sem þú ert ósammála, sem þú nennir ekki. Þú gengur úr salnum, út undir regnþrunginn dimman himininn, þrammar á barinn og rakkar sýninguna í þig, finnur til öll lýsingarorðin um hversu átakanlega hrikaleg upplifunin var – þetta var glatað, þetta var cringe, hvað voru þau eiginlega að pæla þegar þau settu þetta á svið, hvernig dettur þeim í hug að sviðsetja svona klisjur, þetta hefði átt að vera svona, þetta hefði átt að vera hinsegin, það var þetta sem hefði átt að gerast, þetta hér var eini bjarti punkturinn en svo tókst þeim einhvernveginn að klúðra því líka.

Sviðslistir eru ófyrirgefanlegur vettvangur, það ætti að girða leikhúsið af með lögregluborðum fyrir glæpina sem það hefur framið á athygli fólks. Að fá fólk inn í sal, troða því saman hliði við hlið í þröng sæti. Sitjandi í myrkrinu í lélegri loftræstingu og sumir hósta og sumir skrjáfa og aðrir snúa sér við og sjá hverjir eru í salnum og sumir spjalla og sumir setja símann á silent og aðrir gleyma að setja símann á silent og svo slokkna ljósin og á svið er sett atburðarás.

Kannski hundrað manns saman, kannski fimm hundruð, sem deila þessari reynslu, sem fá að hverfa inn í fjöldann, upplifa í hópi, í húsi, í myrkri. Orkan, tengslin milli flytjenda á sviðinu, sögur, hreyfingar, tónlist, hljóð, dans. Finna fyrir vandlega handmótuðum tímanum. Finna öldur samkenndar leggjast yfir myrkvaðan salinn, finna sætin hristast þegar hlátrasköllinn kútveltast um bekkina. Finna gæsahúðina seytla niður veggina þegar sannleikurinn smýgur inn í þig á milli línanna. Sjá fullkomnunina þegar allt kemur saman í þessu augnabliki sem næst hvergi annars staðar en í leikhúsi. Þegar allt gengur upp. Þegar augnablikið verður eilíft í huga hóps sem situr í myrkvuðum sal, kannski hundrað saman, kannski fimm hundruð. Standa upp og klappa, því þetta var eitt af þessum einstaklega sjaldgæfu kvöldstundum. Þar sem þú upplifðir hið fullkomna andartak.  

Leikhúsið er stofnun sem sérhæfir sig í því, ímyndið ykkur, handverksfólk augnabliksins.

 

Stundum mætti heyra saumnál detta.

Stundum heyrist snöktið tipla á tánum um salinn. 

Stundum er ekki hægt að halda áfram vegna hláturflóðbylgju.

Stundum sprettur fram sjálf fegurðin.

Stundum missa leikarar andlitið.

Stundum gengur allt upp.

 

Það gerist alls ekki alltaf.

Það gerist eiginlega aldrei.

En það er líka það dýrmætasta sem ég veit.

Og ég fer í leikhús til að safna þessum augnablikum.

Til að slíkt verði til þarf dirfsku og hugrekki.

 

Bravo á orðstofna í einmitt þeim orðum, dirfsku og hugrekki. Það krefst hugrekkis að setja saman atriði fyrir annað fólk, að standa svo á sviðinu, í búningi, í ljósum, í augliti kannski hundrað manns, kannski fimmhundruð, og geta sig hvergi falið. Það krefst dirfsku að standa á sviði og reyna að setja saman hið fullkomna augnablik, það er óðs manns æði. Það er djarft að dvelja í óvissunni. Að miða út í myrkrið – því að myrkrið er fullt af stjörnum. Í hinu fullkomna andartaki fangarðu eina slíka, bravo.

 

En það er ekki allt leikhús djarft, það er ekki allt leikhús hugrakkt. Það verðskulda ekki öll sviðsverk bravo.

 

Ekkert er jafn vont og lélegt leikhús.

En ekkert er jafn undursamlega stórfenglegt og leikhús þar sem flytjendur og áhorfendur, stundum kannski hundrað, stundum kannski fimmhundruð, fanga saman þessa stjörnu. Ganga svo úr salnum, út undir regnþrunginn dimman himininn, fullir af ljósi.

 

Birnir Jón Sigurðsson er sviðshöfundur sem leggur áherslu á ný, íslensk, frumsamin verk. Hann var hússkáld Borgarleikhússins 2022-23 þar sem hann skrifaði verkið Sýslumaður Dauðans og vinnur nú að enduruppsetningu samsköpunarverksins SUND í Þjóðleikhúsinu. Hann er einn af stofnendum Tóma rýmisins, æfinga- og tilraunarýmis í sviðslistum.

 

 

 

Ávarp á alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2025  eftir Theodoros Terzopoulos, leikstjóra, Grikklandi.

International Theatre Institute ITI
World Organization for the Performing Arts

Getur leikhúsið greint neyðarkall samtíma okkar, örvæntingarhróp fátækra borgara, sem eru læstir inni í frumum sýndarveruleikans, sem skotið hafa rótum í kæfandi einkalífi þeirra? Í heimi tölvustýrðrar tilvistar í alræðiskerfi stjórnunar og kúgunar á öllum sviðum lífsins?

Hefur leikhúsið áhyggjur af vistfræðilegri tortímingu, hlýnun jarðar, gríðarlegum afföllum í fjölbreytileika lífríkisins, mengun sjávar, bráðnandi heimskautaís, auknum skógareldum og öfgakenndu veðri? Getur leikhúsið orðið virkur hluti af vistkerfi? Leikhúsið hefur fylgst með afleiðingum mannlegra athafna á móður jörð í langan tíma, en það á erfitt með að bregðast við þeim.

Hefur leikhúsið áhyggjur af andlegu ástandi mannkyns eins og það er að þróast á 21. öldinni, þar sem fólki er stjórnað af pólitískum og efnahagslegum hagsmunum, netmiðlum og skoðanamyndandi netfyrirtækjum? Þar sem samfélagsmiðlar, eins mikið og þeir auðvelda lífið, mynda örugga fjarlægð í samskiptum við aðra? Hugsanir okkar og athafnir eru mengaðar víðtækum ótta við aðra sem eru öðruvísi eða framandi. 

Getur leikhúsið þjónað sem rannsóknarstofa samlífis fjölbreytileikans, án þess að meðtaka blæðandi áfallastreitu?

Áfallastreitan skorar á okkur að endurgera goðsögnina sem Heiner Müller orðaði: „Goðsögnin er aflgjafi, vél sem unnt er að tengja aðrar margvíslegar vélar við. Hún gefur orku þar til vaxandi orkumagnið sprengir menningarsviðið.“ Ég myndi bæta við velli villimennskunnar.

Geta kastljós leikhússins lýst upp félagsleg áföll í stað þess að varpa misvísandi ljósi á sjálft sig? 

Spurningar án fullnaðarsvara, því leikhús er til og mun lifa áfram, þökk sé spurningum sem enn er ósvarað.

Spurningar sem Díónýsos varpaði fram þegar hann fór um fæðingarstað sinn, leiksvið hins forna leikhúss, og hélt áfram þöglum flótta sínum um stríðshrjáð landsvæði, á leiklistardeginum þetta árið.

Horfum í augu Dýonísusar, afkvæmis Seifs og Semelu, sem fæddist tvisvar, horfum í augun á þessum guði leiklistar og goðsagna sem sameinar fortíð, nútíð og framtíð, holdgervings reikandi sjálfsmyndar, konu og karls, reiði og gæsku, guðs og dýrs sem er á mörkum vitfirringar og skynsemi, reglu og glundroða, línudansari á mörkum lífs og dauða. 

Díónýsos varpar fram grundvallarspurningu tilvistarinnar: „Um hvað snýst þetta allt saman?“ Spurning sem manar skapandi fólk til dýpri rannsóknar á rótum goðsagna og margs kyns víddum lífsgátunnar.

Okkur sárvantar nýtt frásagnarform, sem miðar að því að rækta minnið og móta nýja siðferðilega og pólitíska ábyrgð, til að komast frá margslungnu einræði „myrkra miðalda“ samtímans.

 

Theodoros Terzopoulos er leikhússtjóri, kennari, rithöfundur, stofnandi og listrænn stjórnandi Attis-leikhússins í Aþenu. Formaður alþjóðanefndar leikhúsólympíuleikanna (Theatre Olympics) sem hann stofnaði árið 1994.

Hann fæddist í Norður-Grikklandi árið 1947 og lærði leiklist í Aþenu. Frá 1972 til 1976 var hann meistaranemi og aðstoðarmaður við Berliner Ensemble. Eftir að hann sneri aftur til Grikklands starfaði hann sem forstöðumaður leiklistarskólans í Þessalóníku. Árið 1985 stofnaði hann leikhópinn Attis sem hann hefur stjórnað síðan. Hann var listrænn stjórnandi alþjóðlegra þinga um forna leiklist í Delphi 1985 til 1988. Hann stofnaði ásamt fleirum Alþjóðastofnun Miðjarðarhafsleikhúsa (International Institute for Mediterranean Theatre) og hefur verið formaður grísku nefndar hennar síðan 1991, auk þess að vera forseti alþjóðanefndar leikhúsólympíuleikanna síðan árið 1993. Hann var einn listrænna stjórnenda hátíða leikhúsólympíuleikanna í Delphi, Shizuoka, Moskvu, Istanbúl, Seúl og Peking. Frá því seint á áttunda áratugnum hefur hann þróað sínar eigin leikhúsaðferðir. Vinnustofur tengdar vinnuaðferðum Terzopoulosar fara fram um allan heim. Sem leikstjóri hefur hann sviðsett forngrísk leikrit, óperur og verk eftir mikilvæga evrópska samtímahöfunda, meðal annars í leikhúsum í Rússlandi, Bandaríkjunum, Kína, Ítalíu, Taívan og Þýskalandi. Hann hefur hlotið ótal alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar. Theodoros Terzopoulos býr í Aþenu.

Hafliði Arngrímsson íslenskaði ávarpið og tók saman ágrip um Theodoros Terzopoulos. 

Stjórn Sviðslistasambands Íslands boðar til aðalfundar sem haldinn verður miðvikudaginn 27. nóvember kl 18:00 -20:00 að Lindargötu 6.

Fyrir fundinum liggja hefðbundin aðalfundarstörf, staðfesting sitjandi stjórnar auk tillagna frá stjórn til umfjöllunar og afgreiðslu fulltrúaráðs. Nákvæm dagskrá og fundargögn hafa verið send út sérstaklega.

Með kveðju,
Stjórn Sviðslistasambands Íslands

Gréta Kristín Ómarsdóttir

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2024 eftir Grétu Kristínu Ómarsdóttur, leikstjóra, Íslandi.

Í lokin kvikna ljósin aftur og þá eru þau öll þarna. Meira að segja ef þau voru grátandi síðast þegar við sáum þau, eða ef einhver stakk einhvern með heimskulegum hníf eða eitthvað. Þarna eru þau aftur. Búin að þvo sér og haldast í hendur og hlægja. Kollegarnir, sem eru núna vinir aftur, sem hneigja sig í lokin þegar ljósin kvikna.

Stertabenda. 2016. Marius von Mayenburg og leikhópurinn Stertabenda

Ég á stundum erfitt með að trúa á leikhúsið, þetta þversagnakennda samskiptaform þar sem staður er stund. Þennan óarðbæra fagvettvang þar sem má hugsa hið óhugsandi en úrræðin anna aldrei öllum hugmyndunum. Ég á stundum erfitt með að trúa á þessa sleipu list sem framleiðir merkingu með röð blekkinga. Ég á stundum erfitt með að trúa á leikhúsið og getu þess til að gera nokkuð, hreyfa eða segja nokkuð sem skiptir máli fyrir klofin samfélög í brennandi heimi.

En leikhúsið strengir mig sífellt upp á milli ósamrýmanlegra forsenda þar sem fleira en eitt fær að vera satt á sama tíma, og líka þetta: Leikhúsið er tilgangslaust. Leikhúsið getur bjargað heiminum.

Leikhús bjargaði lífi mínu. Það var niðurstaða sem ég komst að eftir tveggja ára rannsóknarferli í meistaranámi í leikstjórn við Listaháskólann í Helsinki. Sem barn var ég svo lánsöm að finna leiklist og sögur sem athvarf frá óvinveittu umhverfi og flóknum sársauka. Ég hefði allt eins getað ratað í önnur efni og meira eyðileggjandi, en fyrir einhverja lifandis lukku þá fékk amma mín þá flugu í höfuðið að bjóða mér, tveggja ára gamalli, á Dýrin í Hálsaskógi í Þjóðleikhúsinu. Þar fangaði leikhúsið mig, löngu áður en aðrar flóttaleiðir opnuðu gin sitt. Því stend ég sjálf í þeirri þversögn að vera þar sem ég ætti alls ekki að vera. Ég ætti hvorki að vera starfandi leikstjóri, dramatúrg né dósent í sviðslistum við listaháskóla. Ég kem af efnalitlu alþýðufólki og ólst upp á afskekktum stöðum úti á landi þar sem fótbolti og gagnkynhneigð voru einu viðurkenndu farvegirnir til þess að vera ígildi manneskju. Ég átti hvorki fyrirmyndir né sjálfsagt erindi eða ástæðu til þess að daga uppi í sviðslistum og gera leiklist að mínu ævistarfi. En það var einmitt fyrirmyndaskorturinn sem krafði mig alla tíð um eigið fordæmisgildi, og það er erindisleysið sem krefur mig sífellt um erindi mitt og ástæðu: Titrandi barnatrúin á mátt leikhússins sem leyfði mér að finna og verða til þó ótrúlegt væri með öllu.

Það skiptir máli hvaða mál við notum til að hugsa málið; það skiptir máli hvaða sögur við segjum til að segja söguna; það skiptir máli hvaða hnútar hnýta hnúta, hvaða hugsanir hugsa hugsanir, hvaða lýsingar lýsa lýsingum, hvaða tengsl tengja tengls. Það skiptir máli hvaða sögur verða að heimum; hvaða heimar verða að sögum. 

Donna J. Haraway. Staying With the Trouble. 2016: 12

Ekkert okkar á að vera hérna, en við eigum öll heima hérna. Ekkert okkar á sjálfkrafa tilkall til þess að framleiða endanlega merkingu hlutanna, það umboð er ekki hægt að erfa, kaupa eða eigna sér með vísan í einhverskonar hlutlausa, algilda snilligáfu. En við eigum öll sögur og heima innra með okkur sem hafa margslungið erindi og við þurfum öll  á hvoru öðru að halda til þess að gefa sögum okkar merkingu og skapa heiminn sem við viljum búa í. Merking er ekki tæmandi auðlind, það er kannski loforð leikhússins sem ég keppist við að trúa á  – þessa fallvalta vígis samkomunnar, þar sem samkennd fær að vera jafnt meðalið og markmiðið, ef við erum bara nógu hugrökk til þess að trúa því.

Leikhúsið fær stöðuga endurnýjun lífdaga. Augnablikið kemur alltaf aftur og við fáum sífellt annað tækifæri til þess að velja upp á nýtt og taka nýjar ákvarðanir. Hver einasti sviðslistaviðburður – óháð tegund, inntaki og efnistökum – er samansettur af röð ákvarðana. Frá upphafi til enda er ekkert í leikhúsinu nema ákvarðanir og val. Og hvað vel ég? Vel ég sögur og aðferðir sem ég veit að útiloka, minnka og afmennska? Hverju vel ég að trúa og hverju bið ég þig að trúa?

Máttur leikhússins er háður vilja okkar og getu til þess að trúa. Í leikhúsi getum við flogið og flakkað milli vídda, sigrað dreka og sungið börn aftur til lífsins. Við krefjumst þess af kollegum okkar í leikhúsinu að þeir trúi og við bjóðum áhorfendum okkar að trúa. Getum við þá ekki sjálf trúað? Getum við trúað því að Hedda Gabler sé brún, að álfakóngurinn sé fatlaður eða að Lilli klifurmús sé hinsegin? Getum við trúað því að leikhúsið breyti heiminum?

Í lokin kvikna ljósin og þarna eru þau aftur. Kannski hefur ekkert gerst og ekkert hreyfst í heiminum nema lítið rykkorn á kápu áhorfanda á þriðja bekk.

En kannski stendur einhver upp og hrópar „bravo!“
– sem ég reyni að muna að þýðir hugrekki.

Og kannski er allt breytt innra með einu barni, sem hugsar nú eitthvað sem áður var óhugsandi og trúir á eitthvað sem áður var ómögulegt. Kannski hefur myndast pláss þar sem áður var ekkert, kannski er merking orðin til sem engin áður merkti og kannski er heimurinn orðinn örlítið betri, nú þegar ljósin kvikna, þegar þau hneigja sig og setja hjartað fyrir ofan heilann.

*

Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri og dramatúrg, er með MA gráðu í leikstjórn frá Listaháskólanum í Helsinki og BA gráðu frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Áður stundaði hún nám í bókmenntafræði og kynjafræði við Háskóla Íslands. Gréta starfar, ásamt leikstjórn, sem dósent og fagstjóri sviðshöfundabrautar við Listaháskóla Íslands. Hún hefur verið mikilvirkur listamaður í íslensku sviðlistalífi um árabil.

Jon Fosse

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2024 eftir Jon Fosse, leikskáld, Noregi.

International Theatre Institute ITI
World Organization for the Performing Arts

Sérhver manneskja er einstök og samt eins og hver önnur manneskja. Ásýnd okkar, – ytra útlit er ólíkt öllum öðrum, auðvitað, og það er allt gott og blessað. En það er líka eitthvað innra með hverju og einu okkar sem tilheyrir eingöngu þessari einu ákveðnu manneskju. Við gætum kallað þetta sál, eða anda, – eða við þurfum ekki nauðsynlega að gefa því nafn, bara leyfa því að vera sem það er.

En þó að við séum öll ólík, þá erum við líka eins. Fólk frá öllum heimshornum er í grundvallaratriðum alveg eins, sama hvaða tungumál það talar, hvaða húðlit það hefur, hvaða hárlit það hefur.

Þetta kann að vera þversögn, að við séum öll eins en samt frábrugðin hvert öðru. Og kannski er manneskjan í eðli sínu þversagnakennd, í togstreitu líkama og sálar – milli þess sem er rækilega bundið hinu efnislega og þess sem er handan efnislegra tengsla og takmarkana.

En listin, góð list, tekst á sinn undursamlega hátt að sameina hið sértæka og hið algilda. Hún gerir okkur kleift að skilja það sem er öðruvísi – maður gæti líka sagt framandi – sem væri það almennt. Þannig ryður listin úr vegi öllum mörkum tungumála, landa og heimshluta. Hún sameinar ekki bara einstæða eiginleika hvers og eins, heldur einnig,- í öðrum skilningi, það sem mótar og skilgreinir hópa fólks, til dæmis þjóðir.

Listin gerir þetta ekki með því að fletja út fjölbreytileikann og gera allt eins, heldur þvert á móti með því að sýna okkur hvað er ólíkt, hvað er frábrugðið eða framandi. Öll góð list inniheldur einmitt það: Það sem er frábrugðið, eitthvað sem við getum ekki fyllilega skilið en skiljum samt á vissan hátt. Hún felur í sér töfrandi leyndardóm, ef svo má að orði komast. Eitthvað sem heillar okkur og ýtir okkur þannig út fyrir takmörk okkar og skapar með því eitthvað óviðjafnanlegt og stórfenglegt sem hlýtur að vera innsti eðliskjarni allra lista og markmið.

Ég get ekki ímyndað mér betri leið til að sameina andstæður. Listin er einmitt andstæðan við ofbeldisfull átök í heiminum sem við sjáum allt of oft þróast í þá eyðileggjandi freistingu að tortíma öllu framandi, öllu einstöku og öðruvísi, oft með því að beita mannfjandsamlegustu tækniuppfinningum sem við höfum umráð yfir. Það eru hryðjuverk. Það eru stríð. Vegna þess að fólk hefur einnig sínar dýrslegu hliðar knúnar af eðlishvötinni að líta á hið ókunna og framandi sem ógn við eigin tilvist en ekki heillandi ráðgátu. Og þannig hverfur allt sérstakt, vegna þess að við lítum á það sem ógn sem þarf að uppræta.  Það sem utan frá séð virðist frábrugðið og framandi, til dæmis hvað varðar ólík trúarbrögð eða pólitíska hugmyndafræði það verður að yfirbuga og eyða.

Stríð er bardagi við það sem býr djúpt innra með okkur öllum, hið einstaka. Og það er einnig bardagi gegn listinni, gegn innsta kjarna hennar.

Ég hef kosið að tala hér um list almennt, ekki um leiklist sérstaklega, en það er vegna þess, eins og ég hef sagt, að öll góð list, innst inni, snýst um það sama: Að taka hið einstaka, hið algerlega sértæka, og gera það altækt eða almennt. Listin sameinar hið sértæka hinu algilda með listrænni tjáningu. Hún útrýmir ekki sérstöðunni heldur leggur áherslu á hana, lætur það sem er frábrugðið og framandi skína skýrt í gegn.

Stríð og list eru andstæður, rétt eins og stríð og friður eru andstæður, – svo einfalt er það. List er friður.

*

Um Jon Fosse

Jon Fosse, fæddur árið 1959, er  þekktasta núlifandi leikskáld Noregs. Hann er ekki einungis þekktur fyrir leikrit sín heldur einnig skáldsögur ljóð, ritgerðir, barnabækur og þýðingar. Árið 2023 hlaut hann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir nýstárleg leikrit og skáldsögur.

Verk Fosse hafa verið þýdd á yfir fimmtíu tungumál, einkum leikritin sem hafa verið sýnd á þúsundum leiksviða um heim allan.

Fyrirmyndir hans í leikritun segir hann vera þá Samuel Beckett og Thomas Bernhard. Knappur stíll og sterk tjáning mannlegra tilfinninga.

 Verk Jons Fosse eru könnun á kjarna mannlegs ástands ef svo má að orði komast. Hann fjallar um óvissu, kvíða, ást og missi. Með einstökum ritstíl og nákvæmri könnun á hverstagslegum aðstæðum hefur hann fest sig í sessi sem eitt helsta leikskáld samtímans.

Hér á landi hafa nokkur leikrita hans verið flutt. Meðal annarra Nafnið og Nóttin syngur söngva sína sem voru flutt í Útvarpsleikhúsinu. Sumardagur var sviðsett í Þjóðleikhúsinu og leikflokkurinn Sómi þjóðar sviðsetti leikritið Ég er vindurinn.

Hafliði Arngrímsson íslenskaði ávarpið og tók saman ágrip um Jon Fosse.

Stjórn Sviðslistasambands Íslands boðar til aðalfundar sem haldinn verður mánudaginn 26. febrúar kl 11.30-13, staðsetning auglýst síðar.

Fyrir fundinum liggja hefðbundin aðalfundarstörf, kosning til stjórnar og forseta auk tillagna frá stjórn til umfjöllunar og afgreiðslu fulltrúaráðs. Nákvæm dagskrá og fundargögn verða send út sérstaklega.

Óskað er eftir tilnefningum til stjórnar og fulltrúaráðs skv. samþykktum sambandsins.

Með kveðju,
Stjórn Sviðslistasambands Íslands

Opinn fundur um mótun sviðslistastefnu verður haldinn í Kjallaranum í Þjóðleikhúsinu miðvikudaginn 6. desember kl 13-17

Markmið fundarins er að laða fram hugyndir um framtíðarsýn í sviðslistum og helstu áherslur. Sviðslistastefnan mun endurspegla þá sýn og verða þannig leiðarljós í geiranum inn í framtíðina.

  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála ávarpar fundinn.
  • Bjarni Snæbjörn Jónsson, sérfræðingur í stefnumótun og einn stofnenda DecideAct A/S leiðir umræður.

Fundurinn er öllum opinn og er sviðslistafólk hvatt til að mæta og taka þátt í umræðunum.

Skráning fer fram hér:

https://docs.google.com/forms/d/1QszbQhvkQ68nXy8339UNrKWxxDUrtisfqUsBqVvTvxs/edit

*

An open meeting on the development of a Performing Arts Policy will be held in Kjallarinn, at the National Theater on Wednesday, December 6, at 1-5 PM.

The goal of this meeting is to formulate a vision for the performing arts and the priorities to get us there. The performing arts policy will reflect that vision and become a guiding light in the sector.

  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Minister of Culture and Business Affairs, addresses the meeting.
  • Bjarni Snæbjörn Jónsson, an expert in strategic planning and one of the founders of DecideAct A/S, leads the discussions.

The meeting is open to everyone and performing artists are encouraged to attend and participate in the discussions.

Please register here: https://docs.google.com/forms/d/1QszbQhvkQ68nXy8339UNrKWxxDUrtisfqUsBqVvTvxs/edit

Mynd Jorri

Sviðslistasamband Íslands SSÍ

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2023

Ólafur Egill Egilsson, leikari og leikstjóri, Íslandi

Leikhúsið er húsið okkar allra, barnanna, foreldranna, forfeðranna og þeirra ókomnu. Það er hús draumanna, hús andanna, hús líkamanna, hús mennskunnar, það er hús inní húsi, það er ekki hús, það er allt sem var er og verður.

Leikhúsið er bæði gamalt og nýtt. Það byggir á hefðum, gamalli arfleifð sem hefur þróast frá því að við sátum fyrst við eldinn og fórum að segja hvort öðru sögur.

En leikhúsið er líka nýtt. Alltaf. Ekkert leikverk hefur verið leikið tvisvar eins, aldrei, hver uppsetning er ný, hver sýning er ný.

Þannig endurspeglar leikhús alltaf samtíma sinn, í rauninni líka þegar það gerir það ekki, ef við lítum í spegil og sjáum að það vantar allt nema nefið, þá myndi athygli okkar ekki beinast að nefinu, heldur að því sem vantar, og við myndum vilja ræða það.

Þessvegna verða allar leiksýningar, allar spegilmyndirnar sem brugðið er upp, hversu ófullkomnar sem þær eru, hluti af samtali okkar, mannskepnunnar, við okkur sjálf.

Samtali þar sem spurt er: Hvernig birtumst við, hver birtist, hvernig, hvað sést, hvað sést ekki… Hver erum við?

Og þetta samtal á sér stað milli salar og sviðs, sviðs og samfélags, samfélags og einstaklinganna, einstaklinganna og leikhússins.

En það skrýtna í þessu samtali er að engu er hægt að slá föstu, allt er á hreyfingu, ekkert er algilt. Ef ég segi leikhús á að vera pólitískt, þá kemur einhver annar og segir, nei einmitt ekki, ef ég segi leikhús á að vera fyrirmynd, sýna allan fjölbreytileika mannskepnunnar og fegurð hennar þá kemur einhver annar og segir, nei það á að sýna heiminn eins og hann er, ljótan og grimman, o.sv.fr.

Og það skiptir engu máli hver segir hvað, enginn hefur rétt fyrir sér og allir hafa rétt fyrir sér. En. Enginn getur í rauninni sagt, svona á leikhúsið að vera og ekki öðruvísi.

Ekki góða fólkið, ekki vonda fólkið, hvort sem er til hægri eða vinstri, ekki einu sinni fatlaðir eða samkynhneigðir eða forréttiindablindir eða menningarvitar eða leikhúsfræðingar eða forsetinn. Enginn.

Listin, og leikhúsið, er eins og kötturinn í kassa heimspekingsins, sem er bæði dauður og lifandi, kvarkarnir í atóminu sem eru einhversstaðar og allstaðar. Klósett er ekki listaverk, öskur er ekki tónlist, bull er ekki leikrit, þetta er satt og ekki satt.

En.

Þó það verði aldrei nein niðurstaða og ekkert sé rétt og ekkert sé rangt þá skiptir samtalið samt máli.

Það skiptir öllu máli.

Það er partur af spegluninni, eða ekki spegluninni, og því ber að fagna, og það ber að virða, ef einhver segir svona á ekki að gera í leikhúsi, þá er ekki hægt að svara, „jú víst”, eða „við vorum ekki að gera það”, eða „má nú ekkert?” Það á miklu frekar að svara „hversvegna, hversvegna ekki, hvernig, hvernig ekki, afhverju, afhverju ekki, segðu mér, er það, nú já, þú meinar, ég skil…” o.sv.fr.

Það er samtal.

Og það verður að eiga sér stað í heiðarleika, kærleika og auðmýkt á alla bóga og gagnvart öllum sjónarmiðum, gagnvart öllu og öllum.

Af því að, ef það er hægt að tala um tilgang með þessu öllu, leikhúsinu – og lífinu eiginlega.

Þá hlýtur það að vera:

Að sýna og sjá.

Að segja og heyra.

Að tala saman.

Að tala í alvöru saman.

Og skilja.

Það er mennskan.

Það er leikhús.

Ólafur Egill Egilsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið 2002. Hann hefur starfað sem leikari, handritshöfundur og leikstjóri í leikhúsi og kvikmyndum. Hann leikstýrði m.a. Grímuverðlaunasýningunni Níu lífum, fékk Grímuna fyrir leik í Sjálfstæðu fólki, Óliver og Svartri mjólk og sem leikskáld ársins fyrir Fólkið í kjallaranum. Þá hlaut hannEdduverðlaunin sem meðhöfundur kvikmyndarinnar Kona fer í stríð.

Aðalfundur Sviðslistasambands Íslands verður haldinn föstudaginn 9. desember kl 12-13.30. Staðsetning verður send út með dagskrá eigi síðar en tveimur vikum fyrir fund.

Aðildarfélög tilnefna fulltrúa í fulltrúaráð til eins árs í senn. Fjöldi fulltrúa er sem hér segir:

Samtök atvinnuveitenda í sviðslist og tónlist (SAVÍST) 4 fulltrúar
Sjálfstæðu leikhúsin (SL) 2 fulltrúar
Félag íslenskra leikara (FÍL) 1 fulltrúi
Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ) 1 fulltrúi
Félag leikskálda og handritshöfuna (FLH) 1 fulltrúi
Félag íslenskra listdansara (FÍLD) 1 fulltrúi
Félag tæknifólks (FTF) 1 fulltrúi
Félag leikmynda- og búningahöfunda (FLB) 1 fulltrúi
Danshöfundafélag Íslands (DFÍ) 1 fulltrúi
Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi (KlassÍs) 1 fulltrúi

Aðildarfélög skulu senda stjórn SSÍ tilnefningar um fulltrúa samkvæmt þessari grein eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund.

Stjórn SSÍ er skipuð fimm einstaklingum. Stjórnarmenn eru valdir til eins árs í senn svo sem hér segir:

1. Samtök atvinnuveitenda í sviðslist og tónlist velja tvo stjórnarmenn og tvo til vara
2. Sjálfstæðu leikhúsin velja einn stjórnarmann og einn til vara
3. Fag- og stéttarfélög velja einn stjórnarmann og einn til vara“

Dagskrá aðalfundar verður auglýst nánar síðar.