Færslur

Verkefnið Umbúðalaust, og þeir listamenn sem tekið hafa þátt í því hlutu sem kunnugt er verðlaun sem Sproti ársins 2022. Rökstuðningur valnefndar fyrir tilnefningum til Sprota ársins er birtur í fyrsta skipti opinberlega hér að neðan:

FWD youth company

FWD youth company er tilnefnt fyrir að veita ungum dönsurum einstakt atvinnutækifæri á Íslandi. FWD dansflokkurinn skipist í tvo hópa með áherslu á samtímadans annars vegar og klassískan ballet hins vegar. Með stofnun klassíska dansflokksins hefur myndast nýtt atvinnutækifæri klassískra balletdansara sem er einstakt hér á landi.

Helgi Rafn Ingvarsson fyrir verkið „Music and the Brain”

Kammeróperan Music and the Brain eftir Helga Rafn Ingvarsson og Rebeccu Hurst, sem var sýnd í fyrsta sinn á opnum sýningum á Íslandi á leikárinu, var metnaðarfullt og vel unnið grasrótarverkefni atvinnufólks á Óperudögum í Reykjavík. Í þessu skapandi verkefni mátti sjá óvenjulega mikla frumbreytni í nýsköpun og áræðni í nýju rými. Sýningin var mikilvægt innlegg í óperusenuna á Íslandi og mun fara á fjalir erlendis á næstunni.

Lovísa Ósk Gunnarsdóttir fyrir verkið „When the bleeding stops”

Lovísa Ósk Gunnarsdóttir er tilnefnd fyrir verkið „When the bleeding stops“. Í þessu verki fjallar Lovísa um þögnina og skömmina sem fylgt hafa þessu umfjöllunarefni í gegnum aldirnar. Hún bíður okkur inn í þennan heim sem helmingur mannkyns upplifir. Verkið kafar djúpt í hina marglaga reynslu sem tengd er breytingaskeiðinu og við fáum að hlæja, gráta og fagna með þátttakendum. 

Plöntutíð

Plöntutíð er tilnefnd fyrir nýstárlega og framsæknar nálgun á sviðslistamiðilinn og fyrir að setja vistmiðaðar sviðslistir í forgrunn á tímum hamfarahlýnunar.

Umbúðalaust í umsjá Borgarleikhússins

Umbúðalaust er tilnefnt fyrir að hafa orðið fádæma frjór vettvangur ungra sviðslistamanna. Þar hefur hver athyglisverða sýningin rekið aðra sem hefur gert þennan vettvang og listamennina með því allra forvitnilegasta og nýstárlegasta sem áhorfendur verða vitni að í íslensku leikhúsi á síðustu misserum.